Dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:37:33 (4516)

1997-03-17 15:37:33# 121. lþ. 91.1 fundur 249#B dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að jafnréttismálin eru stórmál fyrir íslenska þjóð og að þeim ber okkur öllum að vinna. Ég held hins vegar að sá dómur sem féll í Hæstarétti og vitnað var til sé með þeim hætti að óvíst sé hvort hann geri jafnréttisbaráttunni gagn. Samkvæmt þessum dómi segir að það megi ekki mismuna fólki í launum þótt um sé að ræða ólíka kjarasamninga við tvö félög sem hafa byggt á mismunandi áherslum í samningum. Það er ekkert tillit tekið til þess að réttindi, t.d. lífeyrisréttur, fæðingarorlof og veikindaréttur, séu ólík samkvæmt þessum samningum. Það verður að taka fram að það liggur fyrir í þessu tilviki að þeir einstaklingar sem í hlut eiga, hvort sem það eru karlar eða konur, gátu valið um í hvoru félaginu þeir voru. Mér sýnist, vegna þess að það er spurt um viðbrögð af okkar hálfu, að þetta ýti undir nauðsyn þess að samningar verði gerðir á grundvelli breytts launakerfis þannig að launaákvarðanir eigi í frekari mæli en hingað til stað úti í stofnunum þar sem nauðsynlegt verður að samræma þessi sjónarmið þar og koma í veg fyrir að slík skörun geti átt sér stað.

Ég ítreka það og undirstrika að þessi dómur þýðir það að mínu viti, nema ég hafi misskilið hann, að Alþingi gæti með lögum tekið niður fæðingarorlof, veikindarétt og lífeyrissrétt opinberra starfsmanna og sett öll þessi réttindi jöfn þeim sem gerast á almennum vinnumarkaði. Það hefði engin áhrif fyrir jafnréttið ef það er tryggt að launaútkoman sé sú sama. Það er einungis horft á hluta af heildarkjörunum. Ef ég skil dóminn rétt er hann ekki, því miður, jafnréttisbaráttunni til framdráttar.