Umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:51:15 (4528)

1997-03-17 15:51:15# 121. lþ. 91.1 fundur 252#B umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:51]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í lögunum um mat á umhverfisáhrifum er skýrt kveðið á um það að framkvæmdir sem þegar hafa verið heimilaðar áður en þau lög tóku gildi þurfi ekki að fara undir umhverfismat. Nú hef ég hvorki fyrir framan mig lögin um Fljótsdalsvirkjun né heldur lögin um umhverfismatið en ég hygg að ég muni þetta rétt og það sé nokkuð skýrt kveðið á um þetta og það þurfi þá að grípa til annarra ráða ef það eigi að knýja á um það að hugsanleg Fljótsdalsvirkjun fari undir umhverfismat. Vafalaust er það rétt eins og hv. fyrirspyrjandi nefnir að fulltrúar Landsvirkjunar telja sig hafa til þess fullgild lagaákvæði að fara í þessar framkvæmdir án þess að framkvæmdir fari í mat á umhverfisáhrifum. Það er hins vegar aðeins með nýjar framkvæmdir, nýjar virkjanir, sem ákveðnar eru eftir að lögin um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi, svo og hugsanlega ef um er að ræða þær breytingar, einhverra hluta vegna á Fljótsdalsvirkjun að væntanleg framkvæmd þar, hvernig sem það verður nú, brjóti að einhverju leyti í bága við lögin sem samþykkt voru á sínum tíma eða að ástæða verði talin til að taka þau lög upp eða endurskoða sem gæti opnast farvegur fyrir það að taka framkvæmdirnar undir lögin um mat á umhverfisáhrifum.