Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:55:10 (4531)

1997-03-17 15:55:10# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:55]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa af og til birst í fjölmiðlum fréttir þess efnis að lögreglan greiðir fyrir ábendingar og gerir samninga við afbrotamenn sem veita þeim upplýsingar. Fréttir þessar hafa í flestum tilvikum verið óstaðfestar. Nú bregður hins vegar svo við að frá og með síðustu áramótum höfum við fengið staðfestar fréttir þess efnis að slík viðskipti hafi átt sér stað, samanber fréttir Stöðvar 2 og Bylgjunnar frá 10. og 11. janúar sl., þar sem greint var frá því að yfirmaður fíkniefnalögreglunnar hefði mælt með því að dæmdur fíkniefnasali fengi leyfi til að nota byssu. Þessi einstaklingur hafði þá áður hlotið dóm hér á landi fyrir fíkniefnamisferli og þar áður verið dæmdur erlendis og þá tekinn með fíkniefni og ólögleg skotvopn. Dómsmrn. synjaði áðurnefndri umsókn um byssuleyfi og byggði synjun á umsögn lögreglunnar í Reykjavík um brotaferil þessa einstaklings sem í hlut á.

Komið hefur fram að yfirmaður fíkniefnalögreglunnar telur að hann hafi með fullnægjandi hætti greint bæði lögreglu og ráðuneytisstjóra frá uppáskrift sinni. Getum hefur verið leitt að því að umrædd meðmæli hafi verið liður í viðskiptum fíkniefnalögreglunnar við brotamanninn sem hafi miðlað upplýsingum til lögreglunnar í staðinn. Lögreglustjórinn hefur lítið látið frá sér fara um það hvort honum hafi verið kunnugt um meint viðskipti en vísað til þess að fíkniefnalögreglunni hafi verið ljós afstaða sín í þeim efnum. Ábyrgð lögreglustjóra hlýtur þó að vera öllum ljós og verða að teljast litlar líkur á því að fíkniefnalögreglan hafi keypt upplýsingar án vitneskju lögreglustjóra eða annarra yfirmanna lögreglunnar.

Yfirmaður fíkniefnalögreglu hefur lýst því yfir að greitt hafi verið fyrir upplýsingar en að engar reglur gildi um það hvernig skuli að því staðið enda engar lagaheimildir fyrir hendi sem heimila lögreglunni slíkt. En það er heldur ekki að finna ákvæði sem banna lögreglunni að greiða fyrir upplýsingar. Yfirmenn fíkniefnalögreglu hafa þó ítrekað gengið eftir því við yfirmenn lögreglu og dómsmála að reglur yrðu settar um þessi viðskipti sem og aðrar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir.

Í grein í tímaritinu Mannlífi sem kom út nú fyrir helgi og tekur yfir 20 síður er fjallað um samskipti fíkniefnalögreglunnar við ákveðinn afbrotamann, þann sama og sótti um umrætt byssuleyfi. Í þessari grein koma fram mjög alvarlegar fullyrðingar og ásakanir þess efnis að hér séu stunduð stórfelld fíkniefniviðskipti í skjóli samninga sem gerðir hafa verið við fíkniefnalögregluna. Það er ekki ástæða til þess hér að tíunda þær fullyrðingar eða frásagnir nafngreindra heimildarmanna eða ónafngreindra sem koma fram í greininni. Hins vegar er full ástæða til þess að Alþingi krefjist þess að fram fari rannsókn á því hvort þessar fullyrðingar eru réttar þar sem um er að ræða starfsheiður manna og ekki síður vegna þess að sagt er þannig frá starfsaðferðum fíkniefnalögreglunnar að útilokað er fyrir Alþingi að láta sem vind um eyru þjóta.

Neysla vímuefna er stöðugt vaxandi vandamál í þjóðfélaginu og hér eru á ferðinni fullyrðingar þess efnis að einhver umsvifamestu fíkniefnaviðskipti fari fram nánast í skjóli fíkniefnalögreglu en ég hef talið að deildin standi sig vel miðað við þann aðbúnað og þær fjárveitingar sem hún fær. Samningar um uppljóstrun brotamanna eru þekktir erlendis frá og fullyrt er að þeir hafi hugsanlega leitt til spillingar sem við höfum trúað að lögreglan hér væri laus við. Hugsanlega geta verið rök fyrir því að lögreglunni sé nauðsynlegt að hafa heimildir til að gera samninga en um slíka samninga verða þá að gilda skýrar reglur og öll slík viðskipti verða að vera undir ströngu eftirliti yfirmanna eða þar til skipaðra eftirlitsmanna og mega undir engum kringumstæðum verða til þess að hylma yfir afbrot hvað þá að þau séu stunduð í skjóli slíkra samninga. Við hljótum því að krefjast þess að rannsókn fari fram á þeim staðhæfingum sem komið hafa fram að undanförnu, nú síðast í tímaritinu Mannlífi.

Aðrar fréttir af starfsemi lögreglunnar er óhjákvæmilegt að ræða en það er sala hennar á 24 skammbyssum í eigu lögreglunnar sem fór fram snemma árs 1991. Í lögum kveður skýrt á um að meðferð þessara skotvopna er einungis leyfileg í undantekningartilvikum og mínum huga er ekkert sem réttlætir það að lögreglan losi sig við vopn með þeim hætti sem þarna virðist hafa verið gert.

Ég beini því eftirfarandi spurningum til hæstv. dómsmrh.:

Var ráðuneytinu kunnugt um eða veitti það heimild til þess að lögreglan seldi 24 skammbyssur 4. febrúar 1991?

Telur ráðherra þessa sölu lögreglunnar samrýmast hlutverki löggæslunnar?

Er ráðherra kunnugt um að lögreglan hafi innt af hendi fjárgreiðslur eða veitt annars konar fyrirgreiðslu til brotamanna eða annarra fyrir uppljóstranir eða ábendingar um sakhæft athæfi?

Hefur ráðherra eða ráðuneytið veitt heimildir til viðskipta af þessu tagi og ef svo er, á hvaða lagaheimildum byggir það leyfi?

Hver er afstaða hæstv. ráðherra til slíkra viðskipta? Á að leyfa þau? Ef svo er, mun ráðherra þá beita sér fyrir því að um þau verði settar skýrar reglur?

Og síðast en ekki síst: Mun ráðherra beita sér fyrir því að opinber rannsókn fari fram á þeim alvarlegu fullyrðingum sem birst hafa um samninga sem fíkniefnalögreglan á að hafa gert? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherrann kanna sannleiksgildi þessara fullyrðinga?