Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:10:23 (4535)

1997-03-17 16:10:23# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þær ásaknir sem koma fram á hendur fíkniefnalögreglunni og yfirmönnum hennar í tímaritinu Mannlífi eru mjög alvarlegar, bæði fyrir lögregluna, því þær grafa undan trúnaðartrausti hennar, og einnig fyrir þá einstaklinga sem hafa mannorð sitt að verja. En það er greinilegt að þessi vinnubrögð hafa verið gagnrýnd innan lögreglunnar og verið á vitorði manna þar því að fyrir um það bil ári kom maður á skrifstofu mína hér í þinginu og sagði mér frá því að þarna væri ekki allt eins og hann teldi að rétt væri með vinnubrögð. Ég átti erfitt með að trúa því sem hann sagði mér en það sem hann sagði mér er nánast það sem kemur fram í þessu blaði.

Ég tel þetta vera svo alvarlegar ásakanir að það verði að rannsaka sannleiksgildi þeirra og ég fagna því að hæstv. dómsmrh. hyggst fara fram á athugun á þessum málum og talaði um að ríkissaksóknari færi í það mál en ég spyr hæstv. dómsmrh.: Hverjir eru hæfir til að gera úttekt á vinnubrögðum fíkniefnalögreglunnar? Getur ríkissaksóknari t.d. farið fram á það við lögregluna að hún geri úttekt á þessu? Er lögreglan sem samstarfsmenn fíkniefnalögreglunnar hæf eða jafnvel vanhæf til þess að gera slíka úttekt?

Ef í ljós kemur að þessar ásakanir reynast réttar, sem ég vona nú að sé ekki, þá vil ég spyrjast fyrir um það hvor yfirmenn verði látnir sæta ábyrgð. Og einnig ef í ljós kemur að þau vinnubrögð hafi verið viðhöfð sem nefnd eru í Mannlífi, þá vil ég einnig spyrja: Var það með vitneskju og vitund æðstu yfirmanna löggæslunnar hér á landi? Það er alveg greinilegt að þessi umfjöllun um málefni fíkniefnalögreglunnar krefst gagngerðrar rannsóknar á sannleiksgildi hennar.