Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:12:49 (4536)

1997-03-17 16:12:49# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar fíkniefnadómstóllinn var lagður niður var rannsókn fíkniefnamála ekki fenginn Rannsóknarlögreglu ríkisins af einhverjum ástæðum, heldur heyrði fíkniefnadeildin undir lögreglustjórann í Reykjavík. En þar sem fyrir liggur að starfsemi fíkniefnadeildar verði nú á vordögum færð til Rannsóknarlögreglu ríkisins er e.t.v. ástæða til að koma í veg fyrir að þau mistök og sú misbeiting valds sem fíkniefnadeildin virðist hafa gert sig seka um verði með í farangrinum þegar Rannsóknarlögregla ríkisins tekur við.

Ég gæti ef tími ynnist til rakið hér frásögn af því að fíkniefnadeildin gerði húsleit hjá fólki án húsleitarheimildar sem er skýlaust lögbrot. Ég gæti líka bent á mörg tilvik þar sem fíkniefnadeildin hefur misbeitt valdi sínu og farið offari. Í einu tilviki var talin þörf á því að hafa tal af konu einni er bjó í smáþorpi úti á landi. Í stað þess að senda einn lögreglumann með handtökutilskipun, sem flestum hefði þótt fullnægjandi í þessu tilfelli, taldi yfirmaður fíkniefnalögreglunnar ástæðu til að senda flugvél fulla af einkennisbúnum lögregluþjónum frá Reykjavík ásamt tveim lögreglubílum úr nærliggjandi kaupstað með alla tiltæka lögregluþjóna á vakt til að umkringja húsið.

Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi þess að fíkniefnalögreglan hefur farið offari, hefur brotið á lögvörðum réttindum fólks, hefur að ástæðulausu lítillækkað og niðurlægt fólk. Yfirmaður fíkniefnadeildar lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali að hann hefði greitt uppljóstrurum fyrir þjónustu með upphæðum sem hann taldi raunar skammarlega lágar og líkur benda einnig til að uppljóstrurum hafi verið veittur afsláttur af refsingu og jafnvel að litið hafi verið fram hjá umfangsmikilli ólöglegri starfsemi. Þetta taldi yfirmaður fíkniefnadeildar í sjónvarpsviðtali nýverið vera línudans á gráu svæði.

Niðurstaða þessarar umræðu hér virðist mér því þurfa að verða sú að settar verði nákvæmari reglur um rannsókn sakamála þar sem skýrt komi fram að miklar takmarkanir verði settar við kaup upplýsinga af glæpamönnum, grunuðum jafnt sem sönnuðum gegn fríðindum af einhverju tagi þannig að lögreglan þurfi ekki að stunda línudans á gráum svæðum þó auðvitað þurfi hún að berjast gegn innflutningi og dreifingu fíkniefna með öllum löglegum leiðum.