Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:15:27 (4537)

1997-03-17 16:15:27# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:15]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegur forseti. Lögreglan er einn af hornsteinum okkar samfélags. Hennar hlutverk er að halda uppi allsherjarreglu og gæta að hagsmunum einstaklinga og vernda eignir borgaranna. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að almenningur hafi traust á lögreglunni. Þegar ásakanir af því tagi sem hér um ræðir koma fram þá er mikilvægt að rannsókn á þeim fari fram. Það er gríðarlega mikilvægt í því skyni að treysta trú almennings á lögreglunni. Þeirri trú verður að viðhalda. En því miður hefur öll þessi umræða snúist upp í það að persónugera einstaklinga í stað þess að fá frekar fram viðhorf yfirmanna viðkomandi einstaklinga. Það tel ég galla á þessari umræðu.

Það kom fram hjá hæstv. dómmrh. að það er í skoðun í dómsmrn. hvort af þessari rannsókn verði. Ég vil segja það sem mína skoðun að ég held að mjög nauðsynlegt sé að hún fari fram.

Að lokum vil ég nefna það, virðulegi forseti, að sú þróun hefur átt sér stað víðast hvar í löndunum hér í kringum okkur að lögregla hefur haft heimild til að greiða fyrir einstaka upplýsingar. Ég held að það væri mjög æskilegt að lögreglan hér fengi slíka heimild en jafnframt verður að gæta þess að einstakir embættismenn eða lögreglumenn hafi ekki heimildir til að veita nokkurs konar sakaruppgjöf. Að því þurfum við að gæta. Því er þessi öflun upplýsinga tvenns konar, annars vegar hvort lögreglan hafi heimild til að greiða fyrir upplýsingar ellegar að hún sé að minnsta kosti ekki að veita mönnum nánast sakaruppgjöf eða að koma í veg fyrir rannsókn ef það er hugsanlega uppi á borðinu að veita upplýsingar í staðinn. Um það verður að setja skýrar reglur, virðulegur forseti.