Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:19:50 (4539)

1997-03-17 16:19:50# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:19]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra fer yfirleitt varlega í allar fullyrðingar þá treysti ég því að orð hans um að hann hafi það til alvarlegrar skoðunar að láta rannsaka þær fullyrðingar sem fram hafa komið að undanförnu um starfsemi fíkniefnalögreglunnar þýði að fram fari rannsókn.

Ég vil einnig þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hann lýsti því yfir að hann muni beita sér fyrir því að gerðar verði tillögur og settar reglur um hvernig staðið skuli að viðskiptum sem þessum þegar verið er að kaupa upplýsingar. En það verður að setja reglur um allar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir sem lögreglan viðhefur í dag vegna þess að við vitum og höfum vitað lengi að svokallaðar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir hafa verið viðhafðar. Reglur um slíkar aðferðir verða að vera mjög skýrar. Það dugar ekki munnleg heimild síðan 1983. Ég efast um að það sé annars staðar í íslenska kerfinu sem munnlegar heimildir hafa geymst eins vel og hjá lögreglustjóraembættinu. Því verður líka að ljúka að yfirmenn fíkniefnalögreglunnar séu alltaf og ævinlega sú deild sem dregin er til svara ef svona ásakanir koma fram vegna þess að lögreglustjórinn ber ábyrgð, lögreglustjórinn einn ber ábyrgð á framkvæmdinni. Enda segir í þessari heimild frá 1983 að það verði að fara með hana hverju sinni eftir mati lögreglustjóra. Það er því lögreglustjórinn sem ber ábyrgð á því að reglurnar hafa ekki verið mótaðar úr því að honum var kunnugt að þessi munnlega heimild var til staðar. Hann hefur veitt þessar heimildir, það var hans að sjá um eða gera tillögur um það til ráðuneytisins að reglurnar yrðu mótaðar.