Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:08:26 (4546)

1997-03-17 17:08:26# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:08]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi ræða hv. þm. hafi verið óskaplega tilefnislítil vegna þess að þessi umræða fjallar eingöngu um þennan tiltekna skóla, Flugskóla Íslands. Þau rök sem ég flutti fyrir því að gera hlutafélag um rekstur þessa flugskóla eru auðvitað bara rök um þennan tiltekna skóla, Flugskóla Íslands, og ber alls ekki að reyna að útvíkka það eins og hv. þm. gerði. Ef hv. þm. langar til þess að efna hér í einhvern eldhúsdag um hlutafélagavæðingu eða formbreytingu fyrirtækja, þá má hann það út af fyrir sig. En þetta frv. fjallar ekkert um það. Þetta frv. fjallar eingöngu um það hvernig skynsamlegast sé að reyna að leysa vanda flugnámsins í landinu. Niðurstaða þeirra sem hafa staðið að þessu og niðurstaða þeirra sem sömdu þetta frv. og niðurstaða meiri hluta hv. samgn. er sú að skynsamlegast sé að gera það eins og hér er lagt til, að gera hlutafélag um Flugskóla Íslands og reyna að laða til þess hlutafélags aukið fjármagn til þess að byggja upp þetta nám þannig að það megi verða áfram innan lands. Um þetta snýst málið. Fyrir því reyndi ég að flytja nokkur rök áðan í ræðu minni en hv. þm. sagði að það dygði honum ekki og það er út af fyrir sig sjónarmið. Hann féllst ekki á þau rök og hann telur að mín rök dugi sér ekki til þess að komast að sömu niðurstöðu og ég. Það er út af fyrir sig bara eins og það er. En að hv. þm. geti síðan að dregið þá ályktun að úr því að við höfum hlutafélög um þennan skóla eigi það endilega við um einhverja aðra skóla líka ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir held ég að sé alveg fráleit ályktun hjá hv. þm.

Ég held að langskynsamlegast sé í þessu sambandi eins og svo mörgum öðrum að skoða hvert mál út af fyrir sig. Það er niðurstaðan sem menn hafa komist að varðandi þennan skóla. Menn hafa skoðað rekstur hans, komist að því að hann gengur ekki áfram óbreyttur. Það þarf að finna nýtt form til þess að hann geti gengið og niðurstaðan er hlutafélagaformið. Það sem ég sagði áðan um ríkisskólana var einfaldlega þetta: Ég tel, og það er þá skoðun þeirra sem eru að leggja þetta til, að fullreynt sé um það rekstrarform sem hefur gilt og þess vegna leggjum við þetta til.