Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:19:27 (4551)

1997-03-17 17:19:27# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:19]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. til nýrra lögræðislaga sem ég mæli hér fyrir er samið af nefnd sem ég skipaði í marsmánuði 1993. Hlutverk nefndarinnar var samkvæmt skipunarbréfi heildarendurskoðun gildandi lögræðislaga frá 1984. Í nefndina voru skipuð Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmrn., sem var formaður nefndarinnar, Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Páll Hreinsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis. Ritari nefndarinnar var Áslaug Þórarinsdóttir, deildarstjóri í dómsmrn. Einnig veittu lögfræðingarnir Bragi Björnsson og Stefán Eiríksson nefndinni aðstoð um tíma.

Helstu markmið nefndarinnar við gerð þessa frv. voru þau að skapa aukið svigrúm til að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir manna í ríkari mæli en skilyrði eru til samkvæmt gildandi lögræðislögum þannig að ekki verði gengið lengra en nauðsyn þykir bera til við skerðingu þeirra mannréttinda hvers manns að fara með sjálfræði sitt og fjárræði. Þetta kemur fram í þrennu:

1. Gert er ráð fyrir að unnt verði að tímabinda lögræðissviptingu þannig að hún standi ekki lengur en þörf er á hverju sinni.

2. Gert er ráð fyrir, þegar um fjárræðissviptingu er að ræða, að hún geti tekið til tilgreindra eigna. Með þessu er stefnt að því að svipting gangi aldrei lengra en nauðsynlegt er hverju sinni og að viðkomandi haldi fjárræði sínu að öðru leyti.

3. Lagt er til að sá sem á óhægt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar geti fengið sér skipaðan ráðsmann til að annast um þau.

Allt eru þetta nýmæli í lögræðislögum en samkvæmt gildandi lögum er einungis unnt að svipta mann lögræði eða sjálfræði eða hvoru tveggja alfarið og ótímabundið.

Önnur markmið nefndarinnar voru að tryggja betur en nú er réttarstöðu þeirra sem svipta þarf lögræði eða vista í sjúkrahúsi gegn vilja sínum vegna alvarlegs sjúkdóms eða ofneyslu áfengis eða annarra ávana- og fíkniefna.

Á undanförnum árum hefur farið fram talsverð umræða um hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir. Skömmu eftir að nefndin tók til starfa árið 1993 óskaði hún eftir umsögnum nokkurra stofnana, félaga og samtaka varðandi þetta álitaefni og óskaði eftir því að rök með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár yrðu reifuð. Í athugasemdum með frv. er gerð ítarleg grein fyrir svörum umsagnaraðila og reifuð mikilvæg rök sem voru borin fram bæði með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs. Nefndin kaus að taka ekki beina afstöðu til þessa álitaefnis og samdi því tvær útgáfur af frv. sem eru efnislega eins að öðru leyti en taldi nefndin eðlilegt að ýmis önnur lög sem heyra undir önnur ráðuneyti en dómsmrn. yrðu tekin til skoðunar ef mælt yrði með hækkun sjálfræðisaldurs.

Það frv. sem ég mæli hér fyrir gerir ráð fyrir að sjálfræðisaldur skuli eftir sem áður miðast við 16 ár. Ég bendi á að flestir umsagnaraðilar sem mæla með hækkun sjálfræðisaldurs eru félög eða stofnanir sem fara með málefni barna og ungmenna sem af ýmsum ástæðum hafa lent á villigötum í lífinu, oftast vegna neyslu ávana- og fíkniefna. Einnig er mest áhersla lögð á þörf fyrir að koma þessum ungmennum til hjálpar. Ég tel að vandi þessara ungmenna verði tæpast leystur með hækkun sjálfræðisaldurs heldur fyrst og fremst með öflugum forvörnum og fræðslu. Málflutningur þeirra sem mæla með hækkun sjálfræðisaldurs byggist fyrst og fremst á því að nauðsynlegt sé að koma þessum ungmennum í meðferð án tillits til vilja þeirra. Ég tel hins vegar að meðferð sem byggist á nauðung í stað samvinnu sé ekki líkleg til að skila árangri. Allur þorri íslenskra ungmenna er vel fær um að axla þá ábyrgð við 16 ára aldur sem fylgir því að verða sjálfráða, þ.e. að ráða persónulegum högum sínum svo sem dvalarstað og atvinnu.

Sérstaða okkar Íslendinga varðandi sjálfræðisaldur byggist á gömlum merg enda eru aðstæður íslenskra ungmenna um margt ólíkar aðstæðum í öðrum löndum. Þátttaka ungmenna í atvinnulífinu er meiri en annars staðar tíðkast og dreifð byggð gerir oft nauðsynlegt að ungmenni fari að heiman við 16 ára aldur til að stunda nám við framhaldsskóla. Sú ábyrgð á eigin lífi sem sjálfræði færir ungmennum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt kemur þeim til góða og ég tel að þau rök sem færð hafa verið fram með hækkun sjálfræðisaldurs séu ekki fullnægjandi til að svipta svo stóran hóp ungmenna þeirri ábyrgð sem þeim er fengin samkvæmt gildandi löggjöf.

Í II. kafla frv. er fjallað um sviptingu lögræðis. Kaflinn er að stofni til svipaður II. kafla gildandi lögræðislaga en í frv. er þó að finna mikilsverðar nýjungar auk þess sem málsmeðferðarreglur fyrir dómi eru mun ítarlegri en reglur gildandi laga. Skilyrði lögræðissviptingar samkvæmt 4. gr. eru einfölduð og lagt til að nokkur ákvæði gildandi laga sem þykja úrelt verði felld brott. Þetta er rækilega reifað í athugasemdum með greininni. Þá er lagt til í 5. gr., eins og ég hef áður vikið að, að unnt verði að tímabinda lögræðissviptingu og að unnt verði að svipta mann fjárræði einungis varðandi tilteknar eignir hans. Þessi heimild er bundin við fasteignar, loftför, skráningarskyld skip eða ökutæki, viðskiptabréf og fjármuni á innlánsreikningum hjá bönkum og sparisjóðum, svo og eignir í verðbréfasjóðum. Lögræðissviptingu sem aðeins tekur til tiltekinna eigna þarf ekki að birta í Lögbirtingablaði en slík opinber birting er iðulega viðkvæm fyrir hinn svipta og aðstandendur hans. Um birtingu og skráningu þess háttar sviptingar segir í 4. mgr. 14. gr. frv.

Í 6. gr. er lagt til það nýmæli að unnt verði að svipta mann lögræði til bráðabirgða ef skilyrði til sviptingar þykja vera fyrir hendi og brýn þörf er á sviptingu þegar í stað. Reynslan hefur sýnt að þörf er á slíku úrræði.

Í 7.--11. gr. er mælt fyrir um aðild að lögræðissviptingarmálum, form og efni kröfu um lögræðissviptingu, varnarþing og málsmeðferð. Þar á meðal um rannsókn máls og loks um úrlausn máls í 12. gr.

Í samræmi við markmið nefndarinnar sem samdi frv. og ég vék að hér áðan segir í 1. mgr. 12. gr. að svipting lögræðis skuli ekki ganga lengra en dómari telur þörf á hverju sinni.

Í 13. gr. er með skýrum hætti mælt fyrir um réttaráhrif úrskurðar um lögræðissviptingu.

Í 14. gr. eru ítarlegar reglur um birtingu úrskurðar, skráningu og fleira sem er í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis eins og reifað er í athugasemdum við 14. gr.

Ákvæði 15. gr. um niðurfellingu lögræðissviptingar felur í sér umtalsverðar breytingar frá gildandi lögum. Þar er m.a. lagt til að allir þeir sem geta átt aðild að lögræðissviptingu geti einnig borið fram kröfu um niðurfellingu sviptingarinnar en samkvæmt gildandi lögum á það einungis við um þann sem sviptingar krafðist og hinn lögræðissvipta sjálfan. Þykir hagsmuna hins lögræðissvipta betur gætt með rýmkaðri heimild til aðildar og einnig verður að telja eðlilegt að nánir aðstandendur hins svipta geti borið fram slíkar kröfur þótt þeir hafi ekki átt aðild að lögræðissviptingarmálinu.

Ákvæði 16. gr. um málskot til Hæstaréttar og 17. gr. um málskostnað eru að mestu leyti í samræmi við gildandi lög en þó eru þau nýmæli í 17. gr. að gert er ráð fyrir að kostnaður við öflun læknisvottorðs og þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, sem vikið verður að síðar, skuli greiða úr ríkissjóði.

Í III. kafla frv. er fjallað um nauðungarvistun sjálfráða manns í sjúkrahúsi vegna alvarlegs geðsjúkdóms eða ofneyslu ávana- og fíkniefna. Kaflinn er að stofni til svipaður III. kafla gildandi lögræðislaga en í frv. er jafnframt að finna mikilsverðar breytingar frá gildandi lögum sem hafa það að markmiði að tryggja sem best réttarstöðu þeirra sem sviptir eru frelsi með þessum hætti. Breytingar þessar eiga einnig að tryggja að ákvæði lögræðislaga um nauðungarvistanir séu í samræmi við íslensk stjórnskipunarlög og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hefur fullgilt eða veitt lagagildi.

Nýmælin sem felast í þessum kafla eru, eins og áður sagði, einkum þau að réttarstaða nauðungarvistaðs manns er gerð skýr og ótvíræð. Er það m.a. gert með því að mæla fyrir um rétt hans í öllum tilvikum til að bera nauðungarvist hans undir dóm og rétt hans til að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar auk þess sem skýr ákvæði eru að finna um að þvinguð meðferð nauðungarvistaðs manns í sjúkrahúsi sé háð ákvörðunum yfirlæknis nema í neyðartilvikum og að slíka ákvörðun yfirlæknis sé unnt að bera undir dómstóla. Þá má nefna að í frv. eru að finna reglur um skráningar ýmissa upplýsinga í sjúkraskrá og fleira.

Ákvæði 19. gr. um skilyrði nauðungarvistunar í sjúkrahúsi eru að mestu leyti í samræmi við gildandi lögræðislög, þ.e. að maður sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Þó gætir hér þeirra nýmæla að slík vistun er heimil ef verulegar líkur eru taldar á að maður sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ástand hans er með þeim hætti að jafna má til alvarlegs geðsjúkdóms. Í fyrrar tilvikinu er á því byggt að oft þegar um bráða geðveiki er að ræða er ekki unnt að koma við nákvæmri greiningu á ástandi sjúklingsins áður en honum verður komið í sjúkrahús og í síðara tilvikinu er átt við alvarlegt sjúklegt ástand manns sem ekki fellur undir hugtakið alvarlegur geðsjúkdómur eins og t.d. lystarstol á lífshættulegu stigi.

Í 4. mgr. 19. er nýmæli þar sem segir að lögreglu sé skylt að verða við beiðni læknis um að flytja mann nauðugan í sjúkrahús og að læknir skuli þá fylgja honum ef nauðsyn þykir bera til. Reynslan hefur sýnt að þörf er á slíku ákvæði til að skapa skýra heimild fyrir lögreglumenn til afskipta og aðstoðar í þessum málum og einnig er um að ræða réttaröryggi fyrir þá sem að koma.

Samkvæmt 5. mgr. 19. gr., sem einnig er nýmæli, skal heilbrrh. ákveða með reglugerð hvaða sjúkrahús hafi heimild til að taka við nauðungarvistuðum mönnum. Ljóst er að gera verður ríkar kröfur um góða faglega umönnun og aðbúnað á þeim sjúkrahúsum og þykir rétt að heilbrrh. meti hvaða sjúkrahús uppfylli þær kröfur.

Ákvæði 20.--24. gr. um það hverjir beiðst geti nauðungarvistunar, um form, efni og fylgigögn með beiðni, um trúnaðarlækni dómsmrn. og um málsmeðferð og ákvörðun ráðuneytisins eru að mestu leyti í samræmi við gildandi lögræðislög en þó ítarlegri.

[17:30]

Á hinn bóginn eru reglur 25. og 26. gr. um kynningu á réttarstöðu nauðungarvistaðs manns og skráningu í sjúkraskrá nýmæli í lögum en svipaðar reglur eru nú í reglugerð um sjúkraskrár og skýrslugerð um heilbrigðismál. Þykir tryggara að lögfesta þær.

Mikilvægt nýmæli um ráðgjafa nauðungarvistaðra manna er að finna í 27. gr. frv. þar sem segir m.a. að nauðungarvistaður maður eigi rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðar þar. Í athugasemdum við 27. gr. kemur fram að gert er ráð fyrir að starfi ráðgjafa sinni maður með fagmenntun á sviði félagsráðgjafar eða sálfræði eða á öðrum sambærilegum sviðum.

Mikilvægt nýmæli er einnig í 28. gr. frv. um takmarkanir á þvingaðri meðferð nauðungarvistaðs manns í sjúkrahúsi. Er þar bæði átt við þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð og er heilbrrh. veitt heimild til að setja nánari reglur um þess konar meðferð. Um lok nauðungarvistunar segir í 29. gr. sem er að mestu í samræmi við gildandi lögræðislög. Þó er þar það nýmæli að lagt er til þegar krafa hefur verið gerð um að maður, sem vistaður hefur verið nauðugur á sjúkrahúsi, verði sviptur sjálfræði skuli dómari án tafar senda yfirlækni á sjúkrahúsi þar sem hinn vistaði dvelst staðfestingu á að slík krafa sé fram komin og hvenær hún hafi borist dóminum. Þessi tillaga er í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis sem reifað er í athugasemdum við 29. gr.

Í 30. gr. er kveðið á um skilyrðislausan rétt sjálfráða manns til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla en þessi réttur er tryggður í 4. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög 62/1994 og 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar eins og henni var breytt með stjórnarskipunarlögum, nr. 97/1995. Einnig er í 30. gr. mælt fyrir um rétt manns, sem hefur verið gert að sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð, til að bera þá ákvörðun undir dómstóla og um aðstoð ráðgjafa þess sem áður er nefndur við kröfugerð til dómstóls.

Í 31. gr. er síðan ítarlegt ákvæði um meðferð mála skv. 30. gr. fyrir dómi.

Í 32. gr. er loks mælt fyrir um skyldu til að dæma sjálfráða manni bætur úr ríkissjóði vegna nauðungarvistunar hans ef lögmælt skilyrði hefur brostið til slíkrar aðgerðar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða að henni hefur verið staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Í 1. mgr. er vísað til þeirra skilyrða sem rakin eru í 19. gr. frv. og er þetta í samræmi við 67. gr. stjórnarskrárinnar, samanber stjórnarskipunarlög, nr. 97/1995.

Ég vík þá að IV. kafla frv. um ráðsmenn en ákvæði hans eru nýmæli í lögum. Þar er gert ráð fyrir því að fjárráða maður, sem óhægt á með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, geti óskað eftir því að honum verði skipaður aðstoðarmaður sem í frv. þessu er nefndur ráðsmaður. Skjólstæðingur ráðsmanns er ekki sviptur fjárræði sínu. Hægt er að fela ráðsmanni umsjón tiltekinna eigna skjólstæðings síns. Ráðsmaður er undir opinberu eftirliti yfirlögráðanda og ber honum að hafa samráð við skjólstæðing sinn eftir því sem við verður komið. Skjólstæðingur ráðsmannsins glatar við skipun ráðsmanns gerhæfi sínu yfir þeim eignum sem faldar hafa verið ráðsmanni til umsjónar, en getur hvenær sem er óskað eftir niðurfellingu ráðsmennskunnar og að honum verði á ný fengin umráð eigna sinna. Í merkingu ákvæða frv. er hugtakið ráðsmaður nýtt í íslensku lagamáli en orðið sjálft hefur þekkst hér um aldir. Ráðsmaður er í þeim skilningi sá sem ráðinn er til að standa fyrir búi og segja fyrir verkum í forföllum og fjarveru húsbónda síns. Hinn almenni skilningur fellur því að vissu marki vel að notkun hugtaksins í frv.

Svipuð úrræði og mælt er fyrir um í IV. kafla þekkjast í nágrannaríkjum okkar en það kerfi sem hér er lagt er þó mun einfaldara og skýrara en fyrirkomulag svonefndrar ráðsmennsku í grannlöndunum. Er þessu ítarlega lýst í athugasemdum við IV. kafla frv.

Í 33. gr. frv. er getið um skilyrði fyrir skipun ráðsmanns sem ég gat um áður og í 34. gr. um form og efni umsóknar um skipun ráðsmanns.

Í 35. gr. eru tilgeindar þær eignir sem unnt er að fela ráðsmanni til umsjónar en þær eru hinar sömu og takmörkuð fjárræðissvipting skv. 2. mgr. 5. gr. frv. tekur til. Þessar eignir eiga það allar sammerkt að auðvelt er að skrásetja hver fer með forræði yfir þeim þannig að grandlausum viðsemjendum megi vera kunnugt um takmörkun á ráðstöfunarheimildum skjólstæðings ráðsmanns.

Í 36., 37. og 39. gr. er kveðið á um stjórnsýsluumdæmi og ítarlegar reglur um málsmeðferð og ákvörðun yfirlögráðanda um skipun ráðsmanns, m.a. um hraða málsmeðferðar og leiðbeiningarskyldu og aðstoð yfirlögráðanda við þann sem óskar eftir að sér verði skipaður ráðsmaður. Gert er ráð fyrir að ráðsmaður verði valinn í samráði við umsækjanda en hann verður að sjálfsögðu að uppfylla þau hæfisskilyrði sem mælt er fyrir í 38. gr. frv. en þau eru hin sömu og gerð eru til skipaðra lögráðamanna.

Um tilkynningu um skipan ráðsmanna og skráningar þeirra segir í 40. gr., en þær reglur eru áþekkar þeim reglum sem gilda um sama efni þegar maður hefur verið sviptur fjárræði.

Í 41. gr. er kveðið á um réttaráhrif skipunar ráðsmanns eins og ég gat um hér áðan, þ.e. að skjólstæðingur ráðsmanns glatar við skipunina rétti til að fara með, ráðstafa og takast á herðar skuldbindingar vegna þeirra eigna sem ráðsmanninum hafa verið faldar til umsjónar með þeim undantekningum sem í greininni er mælt fyrir um.

Um heimildir ráðsmanns segir í 42. gr. að ráðsmaður fari með sömu heimildir fyrir þeim eignum sem honum hefur verið falin umsjón með og skjólstæðingur hans hafði fyrir skipunina, nema annað leiði af lögum og að lögmæt ráðstöfun ráðsmanns á þessum eignum bindi skjólstæðing hans. Við tilteknar ráðstafanir ráðsmanns þarf þó samþykki yfirlögráðanda.

Um starfsskyldur ráðsmanns og skaðabótaskyldu hans vegna tjóns af ráðsmannsstörfum gilda sams konar reglur og um lögráða menn.

Þóknun ráðsmanni til handa greiðist af skjólstæðingi hans og skal yfirlögráðandi ákveða fjárhæð þóknunarinnar með tilliti til eðlis og umfangs starfans. Um þetta segir í 44. gr. Gert er ráð fyrir að dómsmrn. móti almennar viðmiðunarreglur um þóknun sem yfirlögráðendur styðjast við.

Um skýrslugjöf ráðsmanns til yfirlögráðanda er mælt fyrir í 45. gr. Skýrslugjöf er mikilvægur þáttur í eftirliti yfirlögráðanda með störfum ráðsmanna og auk reglubundinnar skýrslugjafar getur yfirlögráðandi hvenær sem er krafist þess að ráðsmaður geri honum grein fyrir ráðstöfunum sínum.

Í ljósi þess að ráðsmennska er hugsuð sem úrræði fyrir menn, sem vegna veikinda eða fötlunar eiga óhægt með að sjá um fjámál sín, má búast við að ástand þeirra geti breyst ýmist til hins betra eða til hins verra. Er því lagt til í 46. gr. að skjólstæðingur ráðsmanns geti hvenær sem er óskað eftir að breyting verði gerð á því hvaða eignir eru faldar ráðsmanni til umsjónar. Um meðferð slíkra mála fer eftir sömu reglum og gilda um skipun ráðsmanns eftir því sem við getur átt.

Í 47. gr. er mælt fyrir um lausn ráðsmanns frá störfum. Meginreglan er sú að ráðsmaður og skjólstæðingur hans geta hvor um sig óskað eftir að ráðsmanni verði veitt lausn frá störfum og einnig skal yfirlögráðandi að eigin frumkvæði leysa ráðsmann frá störfum ef skilyrði skipunarinnar er ekki lengur fyrir hendi, hann hefur vanrækt starfa sinn eða gerst brotlegur í starfi eða uppfyllir ekki lengur almenn hæfisskilyrði.

Þótt meginreglan sé sú að skjólstæðingur ráðsmanns geti hvenær sem er óskað eftir að honum verði veitt lausn frá störfum og skjólstæðingur fengið umráð eigna sinna á ný, getur yfirlögráðandi þó frestað meðferð máls skv. ákvæðum 48. gr. ef ástæða er til að ætla að skjólstæðingurinn sé ófær um að ráða fé sínu vegna þeirra ástæðna sem um getur í 4. gr. og krafa hefur verið borin fram fyrir dómi um fjárræðissviptingu hans.

Um tilkynningu um lausn ráðsmanns frá störfum o.fl. segir síðan í 49. gr. Fyrir skipun ráðsmanns, breytingu á störfum hans eða lausn að ósk skjólstæðings hans greiðir skjólstæðingurinn 5 þús. kr. í ríkissjóð.

Í V. kafla frv. um lögráða menn gætir verulegra nýmæla. Þar er að finna mun ítarlegri reglur en í gildandi lögræðislögum um lögborna lögráðamenn, þ.e. foreldra barna og ungmenna sem ólögráða eru fyrir æsku sakir, og einnig um skipaða lögráðamenn. Í 51. gr. er kveðið á um lögráðamenn þeirra sem ólögráða eru fyrir æsku sakir. Um þann þátt lögráðamanna sem lýtur að persónulegum högum barna og ungmenna, þ.e. forsjá, fer samkvæmt barnalögum og lögum um vernd barna og ungmenna. Um fjárhald barna og ungmenna er hins vegar fjallað í 2.--8. mgr. Þar eru m.a. skýrar reglur um atbeina beggja foreldra til ráðstafana er varða fjárhald barns þeirra, um umboð annars foreldris til hins til að fara með fjárhaldið og um skipun fjárhaldsmanns fyrir barn ef þar greind skilyrði eru fyrir hendi. Yfirlögráðandi skal þá gefa barni kost á að tjá sig um skipunina en þó með þeim takmörkunum sem í ákvæðinu greinir.

Í 52. gr. er kveðið á um lögráðamenn þeirra sem sviptir hafa verið lögræði. Ákvæðið er að mestu leyti í samræmi við gildandi lög. Það nýmæli er þó að finna að lögráð manns, sem sviptur hefur verið lögræði, skuli hverfa til yfirlögráðanda þar til lögráðamaður hefur verið skipaður. Ákvæði 53. gr. um sérstaka lögráðamenn og 54. gr. um hæfi lögráðamanna eru samhljóða gildandi lögum.

Í 55.--57. gr. er fjallað um málsmeðferð og ákvörðun um skipun lögráðamanns og tilkynningu um skipun og skráningu lögráðamanna.

Í 58. gr. er mælt fyrir um heimildir lögráðamanns þess sem sviptur hefur verið lögræði til þess að taka lögmætar ákvarðanir fyrir hans hönd. Heimildir lögráðamanns þess sem sviptur hefur verið fjárræði eru að mestu óbreyttar frá gildandi lögum en heimildir lögráðamanna þeirra sem sviptir hafa verið sjálfræði eru þrengdar og afmarkaðar. Er þetta ítarlega reifað í athugasemdum við 58. gr.

Samkvæmt gildandi lögræðislögum eru heimildir lögráðamanns þess sem sviptur er sjálfræði sínu ótakmarkaðar en skv. ákvæðum 58. gr. eru þær bundnar við nauðsynlegar ákvarðanir sem hinn sjálfræðissvipti er ófær um að taka sjálfur. Skýrt er tekið fram í ákvæðinu að sjálfræðissviptur maður verði ekki sviptur frelsi sínu með vistun á stofnun nema lífi hans eða heilsu sé hætta búin að mati læknis og að slíkri vistun verði einungis komið við á stofnun sem rekin er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða lögum um málefni fatlaðra eða heimili eða stofnun sem rekin eru samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna.

Í 1. mgr. 59. gr. er tryggður réttur sjálfræðissvipts manns til að bera ákvörðun lögráðamanns undir dómstóla. Þetta ákvæði er hliðstætt 30. gr. þar sem mælt er fyrir um rétt sjálfráða manns sem vistaður hefur verið nauðugur í sjúkrahúsi skv. ákvæðum III. kafla til að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Þótt staðið sé að ákvörðunum þessum með ólíkum hætti, eiga þau sjónarmið um vernd mannréttinda og réttaröryggi sem búa að baki ákvæði 30. gr. einnig að mestu leyti við um slíkar ákvarðanir lögráðamanna. Þykir því eðlilegt að gera ráð fyrir að sjálfræðissviptur maður geti með sama hætti borið ákvörðun lögráðamanns síns um vistun á stofnun undir dómstóla.

Um starfsskyldur lögráðamanns segir í 60. gr., þar á meðal um samráð hans við hinn ólögráða, um framkvæmd lögráðamennskunnar og að lögráðamaður skuli haga störfum sínum í þágu hins ólögráða eins og best hentar hag hans hverju sinni. Ákvæðið tekur bæði til skipaðra og lögborinna lögráðamanna.

Ákvæði 61. gr. um skaðabótaskyldu lögráðamanna er óbreytt frá gildandi lögum.

Í 62. gr. er fjallað um þóknun og útlagðan kostnað skipaðs lögráðamanns og þar gætir verulegra nýmæla. Samkvæmt ákvæðinu skal lögráðamaður ávallt eiga rétt á endurgreiðslu á nauðsynlegum útlögðum kostnaði vegna starfans. Útlagðan kostnað skal að jafnaði greiða af eignum hins ólögráða en yfirlögráðandi getur þó ákveðið að hann skuli greiddur úr ríkissjóði ef eignir hins ólögráða eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Yfirlögráðandi getur einnig ákveðið að lögráðamaður skuli fá sanngjarna þóknun fyrir störf sín. Með sanngjarnri þóknun er átt við að hún skuli ákveðin í samræmi við eðli og umfang starfans. Meginreglan er sú að þóknun lögráðamanns skuli greidd af eignum hins ólögráða en yfirlögráðandi getur þó ákveðið að hún skuli greidd úr ríkissjóði ef eignir hins ólögráða eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Í ákvæðinu er lagt til að dómsmrh. setji nánari reglur um þóknun yfirlögráðanda. Samkvæmt upplýsingum sem borist hafa frá yfirlögráðendum er í sumum tilvikum ógerningur að fá menn til að taka að sér lögráðamennsku fyrir lögráðasvipta menn. Á þetta einkum við um lögráðamennsku fyrir alvarlega geðsjúka menn og áfengis- og fíkniefnaneytendur. Það verður að teljast með öllu óverjandi að manni sem sviptur hefur verið lögræði sínu verði ekki skipaður lögráðamaður. Til þess að tryggja að svo megi verða er lagt til að yfirlögráðanda verði heimilt að ákveða þóknun til lögráðamanns úr ríkissjóði ef eignir hins ólögráða hrökkva ekki til eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því. Þetta á þó einungis að koma til í undantekningartilvikum eins og ítarlega er reifað í athugasemdum við 62. gr. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að í flestum tilvikum verði nánir ættingjar eða venslamenn hins svipta skipaðir lögráðamenn án þess að fá sérstaka þóknun fyrir störf sín.

Í 63. gr. er mælt fyrir um skýrslugjöf lögráðamanna til yfirlögráðanda sem er nauðsynleg til þess að yfirlögráðendur geti sinnt eftirlitsskyldu sinni með störfum lögráðamanna. Nýmæli er í ákvæðinu um skýrslugjöf lögráðamanna þeirra sem ólögráða eru fyrir æsku sakir. Nokkuð hefur borið á gagnrýni vegna skorts á eftirliti yfirlögráðanda með fjárhaldi lögborinna lögráðamanna þeirra sem eru ólögráða fyrir æsku sakir. Ákvæði í 1. mgr. er ætlað að tryggja eftirlit yfirlögráðanda með störfum þeirra þegar eignir barns eða ungmennis eru sem nokkru nemur. Er hér miðað við að verðmæti eignanna séu 500 þús. kr. eða þar yfir. Auk fyrirmæla um skýrslugjöf lögborinna lögráðamanna eru ítarlegar reglur um skýrslugjöf skipaðra lögráðamanna til yfirlögráðanda í 63. gr. frv.

Í VI. kafla frv. eru reglur um meðferð á fjármunum ófjárráða manna og eiga þær við hvort sem um er að ræða fjárræðisskort vegna æsku hins ófjárráða eða vegna fjárræðissviptingar hans. Reglurnar gilda einkum um meðferð lögráðamanna á fjármunum ófjárráða manna en eiga einnig við um meðferð yfirlögráðanda eftir því sem við á. Þessi kafli hefur að mestu leyti að geyma lítið breytt ákvæði gildandi lögræðislaga en framsetningu hefur verið breytt í því skyni að gera reglurnar aðgengilegri og skýrari og einnig eru sumar þeirra ítarlegri en samsvarandi ákvæði gildandi laga.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa mörg orð um ákvæði þessa kafla en vil þó benda á það nýmæli í 73. gr. sem mælir fyrir um tilkynningarskyldu allra þeirra til yfirlögráðanda sem inna af hendi fjárgreiðslur til lögráðamanns ófjárráða manns, sem eru eign hins ófjárráða, um greiðslu á fjármunum sem nemur 500 þús. kr. eða þar yfir. Er þetta liður í því að tryggja, eftir því sem kostur er, varðveislu fjárins og ávöxtun og eftirlit yfirlögráðanda með því.

Í VII. kafla frv. er kveðið á um löggerninga ólögráða manna. Ákvæði kaflans eru í öllum aðalatriðum sambærileg við ákvæði gildandi lögræðislaga. Reglurnar varða inntak sjálfræðis og fjárræðis að því er varðar heimild ólögráða manns til að gera löggerninga og mæla fyrir um riftun samninga og um skilaskyldu og bætur.

Ég tel því heldur ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þennan kafla, en bendi þó á ákvæði 79. gr. sem er nýmæli um takmörkun á fullnustu í eignum sem takmörkuð fjárræðissvipting skv. 2. mgr. 5. gr. tekur til.

[17:45]

Í VIII. kafla frv. er fjallað um yfirlögráðendur og hlutverk þeirra. Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi sem er óbreytt regla gildandi lögræðislaga. Helstu hlutverk yfirlögráðenda er að skipa lögráðamenn og ráðsmenn og hafa eftirlit með störfum þeirra og með fjárhaldi lögráðamanna þeirra sem ófjárráða eru fyrir æsku sakir. Í kaflanum er heimild til málskots á stjórnvaldsákvörðun yfirlögráðenda til dómsmrh. innan 30 daga frá birtingu hennar. Þessi frestur er styttri en hinn almenni kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum. Ástæða þess er sú að rétt þykir að úrlausn mála er snerta mikils verða persónu eða fjárhagsmálefni manna gangi sem hraðast fyrir sig.

Í IX. kafla frv. er mælt fyrir um verðbreytingar á grunnfjárhæðum sem um er getið í ýmsum greinum um gildistöku, brottfallin lög og lagaskil.

Gert er ráð fyrir að lögin, ef frv. þetta nær fram að ganga, öðlist gildi 1. janúar 1998. Nauðsynlegt er að nokkur tími gefist til að móta þær reglur sem víða er í frv. lagt til að verði settar.

Herra forseti. Ég hef þá gert grein fyrir meginákvæðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.