Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 18:42:19 (4559)

1997-03-17 18:42:19# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[18:42]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. bar fram tvær fsp. Önnur laut að afstöðu eftirlitsnefndar með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég vek athygli á því að á bls. 31 í frv. segir frá þessari afstöðu nefndarinnar. Þar segir svo, með leyfi forseta:

[18:45]

Varðandi fyrirspurnir um það hvort einstakir þingmenn stjórnarflokkanna séu með bundnar hendur um stuðning við þetta frv. er það að segja að við höfum ekki litið svo á að hér væri um flokkspólitískt álitaefni að ræða. Þingmenn stjórnarflokkanna, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., eru þess vegna ekki með bundnar hendur að því er varðar afstöðu til þessa máls. Mér er kunnugt um að í báðum flokkum eru þingmenn sem hafa mismunandi skoðanir á þessu álitaefni þó þingflokkarnir hafi samþykkt að standa að framlagningu frv. Ég tel einfaldlega eðlilegast að þingið sjálft afgreiði þetta álitaefni í atkvæðagreiðslu, auðvitað að undangenginni umfjöllun í hv. allshn. og sé ekkert því til fyrirstöðu. Það eru engar hömlur á afstöðu stjórnarþingmanna í þessu efni.

Það hefur verið að því spurt hvers vegna ekki hafi verið tekin afstaða með því að hækka sjálfræðisaldurinn. Vissulega er rétt að mjög margar umsagnir mæla með því að sjálfræðisaldurinn sé hækkaður eins og hér hefur komið fram. Það er svolítið breytt afstaða frá því sem var í öndverðu. Það voru fleiri umsagnaraðilar á móti þegar þetta starf fór af stað. Án þess að ég ætli að gera lítið úr þeim rökum sem sett hafa verið fram vil ég aðeins vekja athygli á því að mér sýnist að höfuðrökin í þessu séu þrenns konar. Í fyrsta lagi er verið að höfða til þess að með hækkun sjálfræðisaldurs megi fá úrræði til að taka á vanda nokkurs hóps unglinga sem lent hefur á glapstigum eða í erfiðleikum. Í annan stað er verið að vísa til almennra þjóðfélagsbreytinga, að börn séu lengur heima hjá sér en áður var. Í þriðja lagi að hækkunin sé í betra samræmi við löggjöf sem er annars staðar.

Ef við förum aðeins yfir þessi atriði er það svo að mínu mati að meðferðarúrræði, hvort heldur það eru börn, unglingar eða fullorðið fólk sem í hlut á, duga mjög skammt ef meðferðin fer fram vegna þvingunarúrræða. Ég held að það sé mat flestra þeirra sem eru með fólk í meðferð að það sé mjög mikilvæg forsenda fyrir árangri að viðkomandi aðili hafi sjálfur og af frjálsum vilja tekið ákvörðun um meðferðina og að þvinguð meðferð sé ekki líkleg til að skila árangri. Af þeim sökum hef ég ekki talið að þau rök sem þarna hafa verið færð fram væru nægjanlega gild. Ef við horfum svo á almennu rökin, að þjóðfélagsaðstæður séu breyttar, þá er það, að ég hygg, alveg rétt að ugglaust er það svo að unglingar eru lengur heima hjá sér en áður var. En þá vaknar sú spurning hvort einhver knýjandi nauðsyn sé á því þrátt fyrir það að hækka sjálfræðisaldurinn. Breytir sú staðreynd einhverju um það? Ég held að í flestum tilvikum, eins og kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv., gerast svona hlutir ekki akkúrat á einni dagsetningu. Unglingar eru að þróast í það að verða fullorðið fólk og sjálfstæði þeirra og sjálfræði verður raunverulega til á lengri tíma þó að löggjafinn verði auðvitað að miða það við tiltekna dagsetningu. Þess vegna held ég að þó það sé rétt að þessi þjóðfélagsbreyting hafi orðið sé ekki sjálfgefið að það sé knýjandi ástæða til að fylgja því eftir með hækkun sjálfræðisaldurs.

Það er líka rétt að það eru fleiri nágrannaríki okkar sem hafa 18 ára sjálfræðisaldur. Þá vaknar upp sú spurning hvort það séu meiri vandamál varðandi unglinga hér á landi en í þeim löndum. Eru einhverjar slíkar upplýsingar fyrir hendi sem sýna að af þeim ástæðum sé ástæða til að færa sjálfræðisaldurinn til samræmis við það sem er í útlöndum? Ég held að slíkar upplýsingar séu ekki fyrir hendi og vandamál unglinga og forráðamanna þeirra séu ekki meiri hér en þar. Ég hef ekki af þessum sökum talið þessi rök nægjanlega gild til að ég gæti sjálfur staðið að því að flytja frv. með þessum breytingum. En ég skil mætavel þau sjónarmið sem þarna eru sett fram. Ég held að enginn geti gert mismunandi mat á þessu að stóru pólitísku ágreiningsefni. Það er útilokað að gera það og þess vegna eðlilegt að þingmenn hver og einn geri þetta upp við sig og meiri hluti þingsins við afgreiðslu þessa frv. kveði á um það hvor kosturinn þingið vill að verði í endanlegri gerð þegar frv. verður að lögum.

Þetta eru þau helstu sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri í tilefni af þessari umræðu sem hér hefur orðið sem ég þakka að öðru leyti fyrir. Hún hefur verið málefnaleg og stuðningur við meginatriði frv. sem fela í sér mjög miklar breytingar að því er varðar löggjöf um lögræði og margs konar nýmæli sem ég held að séu til mikilla bóta í þessari löggjöf. Ég heyrði ekki annað en að hv. þm. tækju undir og ég þakka fyrir það.