Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 18:52:16 (4560)

1997-03-17 18:52:16# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[18:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þessi síðari ræða hæstv. dómsmrh. miklu betri og málefnalegri varðandi þann þátt sem við höfum helst rætt um, sem er hækkun sjálfræðisaldursins. Hér fór hæstv. dómsmrh. nokkuð inn á þau atriði sem við höfum verið að tíunda varðandi kostina á hækkun sjálfræðisaldursins og það tel ég vel og vera til bóta fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að það liggi fyrir, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að það eru ekki kostnaðarástæður sem liggja til grundvallar því að ekki er lögð til hækkun á sjálfræðisaldrinum heldur sé það fyrst og fremst mat dómsmrh. sjálfs sem ber ábyrgð á þessu frv. með framlagningu sinni. Því ber vissulega að fagna. Eins og hæstv. ráðherra lýsti er hér ekki um flokkspólitískt mál að ræða vegna þess að í eðli sínu er það raunverulega þverpólitískt og sjálfsagt rétt hjá hæstv. ráðherra að um þetta eru skiptar skoðanir, kannski helst innan stjórnarflokkanna. Ég hef ekki fundið annað að því er varðar stjórnarandstöðuna en að þeir sem hafa tjáð sig um þetta efni séu talsmenn þess að hækka sjálfræðisaldurinn.

Nefndin mun fjalla um málið og ég tel mjög mikilvægt að þessar yfirlýsingar ráðherrans liggi fyrir. Það væri kannski ástæða til að spyrja hér í lokin að ef meiri hluti allshn. kemst að þeirri niðurstöðu að hækka beri sjálfræðisaldurinn, mun þá hæstv. dómsmrh. fylgja þeirri leiðsögn og styðja hækkun á sjálfræðisaldrinum? Ég held að sú yfirlýsing sem fram kom hjá ráðherranum um að stjórnarliðar séu ekki bundnir flokkspólitískt, eins og oft er, af þeirri afstöðu sem lýtur að hækkun sjálfræðisaldursins sé mjög góð að minnsta kosti fyrir stjórnarliða í allshn.