Lögræðislög

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 18:55:43 (4563)

1997-03-17 18:55:43# 121. lþ. 91.8 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[18:55]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna umræðu hæstv. dómsmrh. um að þvinguð meðferð sé ekki gagnleg get ég svo sannarlega tekið undir það sem sálfræðingur að það sé oft ekki gagnlegasta meðferðin, en það er oft það sem þarf þegar alkóhólistar eða fíkniefnaneytendur eru annars vegar. Málið snýst ekki um þvingun eða ekki þvingun. Það snýst um þvingun með eða án sjálfræðissviptingar. Það getur verið mjög þungbær kross fyrir einstaklinginn að bera allt lífið að hafa verið sviptur sjálfræði. Enda er framkvæmdin í raun ekki í samræmi við gildandi lög vegna þess að meðferðaraðilar hafa tilhneigingu til að taka tillit til þess að það getur verið þungbært að bera þennan kross.

En ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður fagna því að dómsmrh. virðist vera opinn fyrir því að þetta mál fái málefnalega umfjöllun og er ekki búinn að fastbinda sig í þá ákvörðun sem kemur fram í hinu framlagða frv. Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ástæðan fyrir því að þessi frumvarpsgerð er lögð fram séu yfirlýsingar hæstv. forsrh. um hans afstöðu til þessa máls og formanns Heimdallar. Þau hafa bæði tvö lýst því yfir að þau vilji ekki hækka sjálfræðisaldurinn. Ég velti fyrir mér hvort það sé hin raunverulega ástæða fyrir frv. tveimur að nefndin hefur fengið svolítið tvíbent skilaboð frá ráðherrum Sjálfstfl.