Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 13:59:23 (4570)

1997-03-18 13:59:23# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[13:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er fyrst til máls að taka, eins og hv. frummælandi gat reyndar um, að þetta mál er óbeint til meðferðar í þinginu nú þegar í þáltill. um opinbera fjölskyldustefnu sem er til meðferðar í hv. félmn. Ég vænti þess líka með tilliti til þess hve jákvætt var tekið undir þessa tillögu þegar fyrri umræða fór fram um hana að hún verði afgreidd úr nefndinni innan skamms þannig að örugglega nái hún afgreiðslu fyrir þinglok í vor. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því. Þar er, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gat réttilega um, drepið á þessa samþykkt ILO. Þar að auki er þetta mál til meðferðar í ríkisstjórninni nú sem stendur og ég hef í hyggju að flytja það á Alþingi í formi þáltill.

Ég tel reyndar heppilegast að aðilar vinnumarkaðarins semji í kjarasamningum um atriði eins og þau sem samþykktin fjallar um. Kjarasamningar eru í gangi og þess vegna tel ég skynsamlegt að doka við og sjá hvernig kjarasamningarnir þróast og hvað í þeim felst þegar upp er staðið áður en ég legg málið fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar og Alþingi.

Ég hef mikla trú á því að aðilar vinnumarkaðarins geti samið um þetta mál úr því að þeim tókst að semja um vinnutímatilskipun Evrópusambandsins sem er að mínu mati miklu erfiðara mál og flóknara en þessi ILO-samþykkt. En það tókst þeim að gera og það mál er nálægt því að vera í höfn.

Varðandi það sem hv. þm. orðaði áðan um að ég væri atvinnurekendamegin í þeim málum sem snertu vinnumarkaðinn, þá vil ég mótmæla því harðlega. Ég vitna til þess að mér tókst að ná ágætu samkomulagi við Alþýðusamband Íslands og formenn landssambanda þess um afgreiðslu frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir og um atvinnuleysistryggingar. Ég er prýðilega ánægður með það samkomulag og veit ekki betur en formenn landssambandanna séu það líka. Þetta sýnist mér vera sönnun þess að við séum ekkert eins og hundar og kettir. Ég á ágætt samstarf við núverandi forseta ASÍ og reyndar átti ég gott samstarf við fyrrv. forseta ASÍ líka meðan hann gegndi því embætti. Þó að einhverjir árekstrar kunni að verða út af einstökum málum þarf það ekki að verða til þess að það þurfi að vera einhver rótgróin afstaða til frambúðar.

Í mínum huga er það ekki spurning hvort þessi samþykkt verður fullgilt. Spurningin er bara hvenær og ég hef fullan áhuga á því að fá það gert fyrir vorið. Ég ætla ekkert að endurtaka það sem ég hef sagt áður og vitnað var til í framsöguræðu hv. þm. Ég hef ekki breytt um skoðun. Það kann að vera að ég þurfi að fá í vor afbrigði fyrir málinu, en ég vil ekki leggja það fram fyrr en ég sé hvað í yfirstandandi kjarasamningum kemur til með að felast og ég vona að kjarasamningar takist á vinnumarkaðnum innan skamms.