Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:20:11 (4576)

1997-03-18 14:20:11# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:20]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í nokkrum orðum taka undir tillöguna sem hér er til umræðu. Hún hefur verið lögð fram áður og var m.a. tekin til nokkurrar skoðunar á sl. ári í hv. félmn. Hún var send út til umsagnar og fengust býsna góð og yfirleitt jákvæð svör eins og fram kom hjá hv. frummælanda nema hvað samtök vinnuveitenda voru með athugasemdir við þessa tillögu.

Það vekur upp þá spurningu hvers vegna íslenskir vinnuveitendur eru svona tregir til þess að samþykkja félagslegar úrbætur á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum orðið rækilega vör við það að menn hafa gengið fram af mikilli hörku við að koma tilskipunum Evrópusambandsins í framkvæmd og hefur verið mikill straumur af þeim í gegnum þingið. En það sem lýtur að félagsmálum, vinnumarkaðsmálum og jafnréttismálum kynjanna lætur heldur á sér standa og þarf að vinda bráðan bug að því að fá slíkar tillögur inn. Það er ýmislegt sem Evrópusambandið hefur samþykkt í þeim efnum sem fengur væri að að fá inn í íslensk lög og rifjar það þá upp þá umræðu sem hér fór fram fyrir nokkrum árum um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að þar var því oft haldið til haga að Evrópusambandið hefur gert margar góðar samþykktir og er einfaldlega komið langt á undan okkur í ýmsu því sem víkur að félagslegum réttindum.

Sama gildir um samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þær eru býsna margar sem ekki hafa verið leiddar í lög hér eða ekki samþykktar og á það skýringar í þeirri tregðu sem virðist vera hér ríkjandi til að breyta vinnumarkaðnum. Þá er ég að tala um bæði vinnutíma og því sem snýr að foreldrum, sveigjanlegum vinnutíma, breyttum launakerfum og hinu og þessu sem þarf að gerast hér og menn þurfa að skoða.

Það kom fram í máli hæstv. félmrh. hér áðan að hann hefði trú á því að aðilar vinumarkaðarins gætu samið um mál af þessu tagi. En skemmst er frá því að segja að ákaflega lítið hefur gerst á undanförnum árum í öllu því sem snýr að félagsmálum. Ég man nú ekki bara hvenær það gerðist síðast að samið var um einhver stórvirki sem snúa að félagsmálum. Þó kemur þessi vinnutímatilskipun ESB inn í dæmið og auðvitað var ánægjulegt að samningar skyldu nást um hana. En það á algerlega eftir að koma í ljós hvernig og hvort hún virkar á íslenskum vinnumarkaði. Mín skoðun er því sú, hæstv. forseti, að vegna þessarar tregðu eigi löggjafinn að ganga á undan með góðu fordæmi og samþykkja breytingar sem lúta að vinnumarkaðnum þegar þær eru í samræmi við alþjóðasáttmála sem við erum aðilar að eða samþykktir alþjóðastofnana sem við erum aðilar að vegna þess að þetta horfir yfirleitt mjög til bóta. Umræðan um t.d. stöðu kvenna á vinnumarkaði, stöðu mæðra og stöðu foreldra í veikindum barna og fleira og fleira er einfaldlega lengra komin meðal margra Evrópuþjóða og jafnvel í Bandaríkjunum líka þar sem samningar eru nú miklu algengari milli starfsmanna einstakra fyrirtækja. Ég held að við getum ekki beðið endalaust eftir því að þessir blessaðir menn sem stjórna samtökum vinnuveitenda fari að ganga vonandi inn í 20. öldina --- maður er nú ekki að ætlast til þess að þeir gangi í 21. öldina --- en alla vega að þeir fari að átta sig á þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað á Íslandi og að þeirri heimspeki sem er ráðandi meðal framsækinna vinnuveitenda sem er á þá leið að því ánægðara sem starfsfólkið er og því betur sem að því er búið, bæði í launum og félagslega, því betur gangi fyrirtækinu. Þetta er sú heimspeki sem víðast hvar er að ryðja sér til rúms. Manni þætti gaman að sjá slíkar hugleiðingar hjá íslenskum vinnuveitendum um ábyrgð gagnvart starfsfólki og um það sem hægt er að gera til þess að auðvelda fólki lífið í okkar stressaða heimi frekar en vera með þessa eilífu tregðu sem mér finnst vera orðin nánast einkenni á afstöðu íslenskra vinnuveitenda og má þar vísa til umræðu um vinnulöggjöfina og margt, margt fleira sem hefur komið til umræðu hér á undanförnum árum.

Erindi mitt í ræðustólinn, hæstv. forseti, var fyrst og fremst að taka undir efni þessarar tillögu. Hún fékk mjög jákvæðar umsagnir á liðnu þingi og ég held að löggjafanum ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að samþykkja þessa tillögu.