Alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:26:35 (4577)

1997-03-18 14:26:35# 121. lþ. 92.7 fundur 199. mál: #A alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:26]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð með þessa umræðu. Ég hafði reiknað með að flytja mun fleiri rök fyrir því að fullgilda samþykktina og koma hér aftur og nýta tíma minn, benda m.a. á þátt sveitarfélaganna í því að uppfylla hin ýmsu skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að samþykktin teljist fullgild, svo sem dagvistaruppbyggingu og fleiri atriði sem tengjast því að tryggja þennan þátt, og sem gera það að verkum að það er nánast alls staðar sem við erum búin að taka þannig á málum að okkur er ekkert að vanbúnaði að staðfesta tillöguna nema þetta ákvæði um að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera ástæða uppsagnar.

En ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að hafa langa ræðu eða tína til fleiri rök. Ég ætla að þora að treysta því að ráðherra láti athafnir fylgja orðum sínum hér. Ég vil samt spyrja félmrh. hvort hann komi með tillöguna á þessu vori vegna þess að hann vísaði til þess að hann væri með þetta mál til meðferðar í ríkisstjórn. Hann talaði líka um að hann vildi gefa mönnum tækifæri til að semja í kjarasamningum. Það liggur nokkuð fyrir hvaða atriði verið er að taka fyrir á milli aðila. Þá er ég að vísa til félagslegra atriða. Þetta er þá eitthvað nýtt sem þyrfti að koma inn. Sumir eru búnir að semja þannig að væntanlega verður nú gengið frá þessu. Ef ekki fer allt í verkföll og upplausn á næstu klukkustundum eða sólarhringum þá er hugsanlegt að hér verði samið innan tíðar og þá er ekkert því að vanbúnaði, ef þetta hefur ekki komið inn í kjarasamninga, að ráðherrann fylgi orðum sínum eftir og komi með tillöguna hérna inn. Og ég hlýt að bíða spennt eftir því hvort félmn. fær tækifæri til að vinna með þetta góða mál áður en þingi lýkur í vor.

Eins og ég vísaði til, forseti, í ræðu minni þá liggja umsagnir þegar fyrir og við getum flýtt fyrir með því að senda þessa tillögu út til fleiri aðila ef á þarf að halda þannig að allt verði tilbúið þegar tillaga ráðherrans berst til nefndarinnar eða inn á borð þingmanna. Þá þarf ekki að tefja hana í málæði eða með rexi. Við höfum haldið ótal fundi í félmn. um önnur mál, allt upp í 3--4 í viku meðan við vorum að fjalla um hin umdeildu frv. um atvinnuleysistryggingar. Nú eru fjölskyldumálin á dagskrá og ég mundi fagna því mjög ef hægt væri að búast við því að á þessu vori kæmi tillaga frá ráðherranum um að fullgilda þessa samþykkt. Það yrði honum til sóma að um leið og hér væri samþykkt opinber fjölskyldustefna, hefði hann gengið þannig frá málum að hægt væri að fullgilda þessa samþykkt. Því er fyrirspurn til hans í lokin: Mun hann koma með þessa tillögu inn á þessu vori?