Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 14:55:15 (4582)

1997-03-18 14:55:15# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[14:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að sem betur fer sé nú flest af því sem tekið er fram í þessari þáltill. þegar komið til framkvæmda. Ég held að þessar reglur séu að mestu leyti orðnar rótgrónar hjá okkur. A.m.k. hef ég ekki orðið var við það í mínu starfi að þar væri verulegur misbrestur á. Ég hygg að atvinnurekendur rökstyðji yfirleitt uppsögn starfsmanns ef eftir því er leitað. Ég tel líka að það sé ekki algengt að starfsmanni sé sagt upp störfum nema til þess séu gildar ástæður.

Í þriðja lagi eru að vísu ekki til neinar skrifaðar reglur um tiltekið málsmeðferðarkerfi sem starfsmaður á rétt á við uppsögn, en ég hygg að honum sé yfirleitt gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum sem á hann eru bornar. Hann skal eiga rétt á að vísa uppsögninni til hlutlauss aðila og hann á rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Þetta tel ég að heyri fortíðinni til að mestu eða jafnvel að öllu leyti.

Í mínu starfi hef ég einu sinni haft grun um það, það var ekki nein vissa, að starfsmanni hafi verið sagt upp vegna þess að vinnuveitanda hans eða yfirmanni líkaði ekki útlitið en ég hef ekki neinar sannanir fyrir því að svo hafi verið. Ég held að yfirleitt sé samstarf yfirmanna og/eða vinnuveitenda og launþega á vinnustöðum sæmilega gott og það heyri til undantekninga ef það er jafnvont og hv. tveir síðustu ræðumenn hafa viljað vera láta.

Ég er alveg tilbúinn og tel ekki mikið mál að fullgilda þessa samþykkt í sjálfu sér. Ég er alveg tilbúinn að vinna að því. En á hinn bóginn hefði ég áhuga á því, ekki hér í þessari umræðu heldur ef hv. flutningsmenn vildu sýna mér dæmi úr daglega lífinu þar sem þessi ákvæði hefðu verið brotin nú á allra síðustu árum. Ef mikið er um það þá tel ég að nauðsynlegt kunni að vera að fullgilda þessa samþykkt.

En það er annað sem er drepið lauslega á í greinargerðinni sem ég hef afar mikinn áhuga á því að vinna að af því að mér finnst það vera í hinu megnasta ólagi. Ég hef snúið mér til vina minna hjá verkalýðshreyfingunni og óskað eftir samstarfi um að reyna að stemma stigu við þeirri fáránlegu þróun sem hefur orðið í þjóðfélaginu varðandi verktakasamninga og ég hef miklar áhyggjur af. Að mínu mati er það sem mest er að í skipulagi vinnumála á Íslandi hvað menn eru farnir að fara fáránlega með verktakasamninga, þ.e. menn eru að reka fyrirtækin með alls konar gerviverktökum eða undirverktökum sem standa svo uppi réttlausir og vita í mörgum tilfellum lítið um hvað þeir eru að gangast inn á eða hvaða ábyrgð þeir eru að taka á sig. Ég hef líka trú á því að mikið af þessari vinnu sé svart og tel afar brýnt að leggja vinnu í það að reyna að lagfæra þetta og hef óskað eftir, að vísu munnlega en ekki skriflega, samstarfi og tillögum um úrbætur á þessu sviði. Ég held að við ættum að reyna að hjálpast að við að lagafæra þetta sem aflaga hefur farið.

Hér var sagt fyrr og því haldið statt og stöðugt fram að ég stæði alltaf með atvinnurekendum ef í odda skærist. Hér er aftur minn ágæti starfsmaður, Gylfi Kristinsson deildarstjóri, sakaður um hlutleysi. Þetta finnst mér skjóta nokkuð skökku við ef minn starfsmaður og fulltrúi er hlutlaus í nefndinni en síðan er verið að saka okkur um að standa með vinnuveitendum. Það finnst mér ekki vera sanngjarnt eða það er mikil þversögn í þessu. Auðvitað er þessi ágæti formaður nefndarinnar að reyna að leiða menn saman og ekki að gera eitthvert bandalag við annan aðilann um að berja á hinum. Hans verkefni er það að leiða menn að sameiginlegri niðurstöðu og ég vísa því algerlega á bug þeim ásökunum sem hér eru settar fram um að eitthvert vítavert hlutleysi sé hjá þessum starfsmanni sem ég vil láta koma fram að mér finnst vera afar hæfur.