Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 15:10:11 (4587)

1997-03-18 15:10:11# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:10]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að oft hef ég orðið undrandi undir ræðum hæstv. félmrh. En nú verð ég að segja eins og er að undir þessari ræðu þá varð ég fyrst kjaftstopp en þegar á leið áttaði ég mig nú á því og hef fengið málið aftur. Ég vona að ég komi öllu því til skila sem þarf að gera athugasemdir við á þeim tíma sem ég hef aflögu.

Hæstv. félmrh. segir að það hljóti að vera til einhverjar reglur sem taki á því þegar launafólk er beitt órétti, t.d. þegar því er sagt upp þegar það er haft fyrir rangri sök. Hlustaði hæstv. félmrh. ekki á ræðuna? Þekkir hann ekki lagaumgjörðina í kringum þessi mál, eða hvað er að? Ég undrast það að hæstv. félmrh. skuli koma hér og halda því fram gjörsamlega bláeygur að það sé þannig á Íslandi að atvinnurekendur almennt rökstyðji uppsögn. Hann heldur því fram gjörsamlega bláeygur að launafólki á Íslandi sé ekki sagt upp nema fyrir liggi gild ástæða. Hann er alveg hissa á dæminu sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefnir hér og segir að þá hljóti bara starfsmaðurinn að þurfa leita réttar síns. Hvaða réttar þegar engar reglur eru til, hæstv. félmrh.? Það eru engar reglur til sem þessi launamaður getur byggt rétt sinn á. Það er alveg sama hvort um það er að ræða að þessi ágæti atvinnurekandi byggi þessa ástæðu á röngum forsendum, hvort það eru upplognar sakir eða hvað það er, það eina sem þessi launamaður á rétt á er ákveðinn uppsagnarfrestur og ekkert annað. Það er þetta sem við erum að reyna að laga, hæstv. félmrh. Og úr því hæstv. ráðherra hefur ekki skilið það þá held ég að ég verði að endurtaka það, enn og aftur hér: Það eru engar reglur á þessu sviði.

(Forseti (ÓE): Forseti vill minna hv. þm. á að ræðumönnum ber að snúa máli sínu til forseta en ekki ávarpa ráðherra eða þingmenn út í sal.)

Athugasemdin er tekin til greina, herra forseti.

Hæstv. félmrh. hélt því fram áðan, herra forseti, að það væri þannig að hægt væri að vísa máli til tiltekins hlutlauss aðila þegar launafólk væri órétti beitt. Í fyrsta lagi er ekkert um það að ræða að það séu til einhverjar reglur sem launafólk getur byggt mál sitt á. Í öðru lagi er þetta málsmeðferðarkerfi ekki til. Til þess að hægt sé að vísa málum til Félagsdóms, ef það er sá aðili sem hæstv. félmrh. er að vísa til, þá þurfa að vera til einhverjar reglur sem launafólk getur byggt rétt sinn á. Þær eru ekki til staðar. Ég er undrandi yfir því að hæstv. félmrh. hafi ekki enn áttað sig á því eftir alla þessa umræðu og eftir að hafa þó verið félmrh. í allan þennan tíma og sem á að heita æðsti maður vinnumarkaðsmála á Íslandi.

Hæstv. félmrh. sagðist ekki hafa kynnst því í sínu starfi að launafólk væri órétti beitt að þessu leyti. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann sé þá að tala um starf sitt sem bóndi eða starf sitt sem þingmaður. Eða hefur hæstv. félmrh. kannski starfað að réttindamálum launafólks sérstaklega? Hefur hann verið í starfi hjá verkalýðshreyfingunni eða hefur hann verið í starfi hjá samtökum atvinnurekenda? Á hvaða starfi byggir hæstv. félmrh. þessa sérþekkingu sína?

Það er grundvallaratriði í þessu máli að reglurnar vantar til þess að byggja rétt sinn á. Það eru fjölmörg dæmi þess, eins og hæstv. félmrh. reyndar viðurkenndi áðan --- það var þó eitt sem hann viðurkenndi, að gerviverktakan væri afskaplega slæmur hlutur og það þyrfti að koma í veg fyrir hana. Hafi hæstv. félmrh. hlustað á framsöguræðu mína áðan, þá tók ég það sem sérstakt dæmi um það að ef til væru reglur um starfsöryggi launafólks á Íslandi sem eitthvert hald væri í, og bara yfirleitt einhverjar reglur, þá mundi gerviverktakan ekki hafa átt sér stað. Það er ósköp einfalt. Vegna þess að það liggur ljóst fyrir í þessum gerviverktakadæmum að fólki er sagt upp launasamningum. Út af hverju er því sagt upp launasamningnum, herra forseti? Jú, því er sagt upp launasamningnum vegna þess að það á að skerða þann rétt sem launasamningurinn byggir á, ráðningarsamningurinn.

[15:15]

Það er tvenns konar form til þegar verið er að ráða mann í starf. Annað er að byggja á ráðningarsamningi, því fylgja ýmsar skyldur fyrir atvinnurekandann sem honum er skylt að standa við og aðrar skyldur líka á móti vissulega fyrir launamanninn. Ef um verktöku er að ræða þá býr launamaðurinn við mun vægari réttindi. Og ef þessi samþykkt væri í gildi, herra forseti, og það væri þannig, eins og hæstv. félmrh. einhverra hluta heldur, ég veit ekki hvers vegna, það er kannski þannig í Húnavatnssýslunni, ég hef ekki kynnst því, að fólki á Íslandi sé ekki sagt upp nema gild ástæða sé fyrir því þá væri fólki ekki sagt upp í hundraða og þúsunda tali síðustu ár til þess eins að láta það fara yfir á verktakasamninga. Það er þó dæmi sem hæstv. félmrh. viðurkennir. Vill þá hæstv. félmrh. meina að það sé gild ástæða? Eða hvað? Er þetta ekki þversögn við það sem hæstv. félmrh. sagði áðan, herra forseti, að það væri yfirleitt þannig að launafólki væri sagt upp á grundvelli gildrar ástæðu? Gerviverktakasamningarnir snúast beinlínis um að taka af fólki réttindi og láta það standa uppi sjálft réttindalaust án uppsagnarfrests, án ýmissa réttinda eins og orlofs. Í mínum huga eru það ekki gildar ástæður en það má vel vera að hæstv. ráðherra félagsmála á Íslandi telji þetta gildar ástæður.

Hæstv. félmrh. vændi okkur sem hér höfum talað um að við séum með, ég man ekki lengur hvernig hann orðaði það, ég náði ekki að punkta það niður, það var svo margt að punkta niður eftir hæstv. félmrh., að við værum að nefna hér einhver dæmi út í loftið. Einhvern veginn þannig orðaði hæstv. ráðherra það. Það vill nú þannig til að áður en ég kom inn á hið háa Alþingi starfaði ég um nokkurn tíma hjá stærstu samtökum launafólks í landinu þannig að þau dæmi eru fjölmörg --- reyndar hef ég ekki gert mikið af því að nefna hér einstök dæmi vegna þess að ég tel að hæstv. félmrh. sé í einhverjum tengslum við lífið á Íslandi, að hann átti sig á því að einhverju leyti hvernig ástandið er á vinnumarkaðnum en ég verð að segja eins og er að ég er farin að efast um það eftir þessa ræðu hans hér áðan. Þess vegna sá ég ekki ástæðu til þess að fara að tína upp dæmin en ég get fullvissað hæstv. félmrh. um að dæmin eru fjölmörg. Það eru fjölmörg dæmi á síðustu árum sem hægt er að benda á og ég er viss um að vinir hans hjá Alþýðusambandinu eða hjá samtökum launafólks almennt geta bent honum á fjölda dæma. Ef hæstv. félmrh. er að halda því fram hér að við sem hér tölum, þeir þingmenn sem sýna því áhuga að reyna að bæta stafsöryggi launafólks á Íslandi, séum með einhverjar getsakir út í loftið þá þykir mér hæstv. félmrh. vera farinn að vega svolítið að vinum sínum í verkalýðshreyfingunni vegna þess að við höfum vitnað hér til samþykkta og til áratuga gamalla baráttumála verkalýðshreyfingarinnar. Byggir verkalýðshreyfingin sínar kröfur á eintómum getsökum? Hvernig í ósköpunum stendur á því að atvinnurekendur, hinn vinahópur hæstv. félmrh., hafa ekki viljað samþykkja þessar reglur? Þeir hafa ekki viljað gangast við þessum samþykktum inni í þríhliða nefndinni. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að það mundi hafa í för með sér einhver útlát? Eða að það mundi á einhvern hátt skerða stjórnunarrétt atvinnurekenda frá því sem nú er?

Herra forseti. Það er enginn að segja það hér að við sem höfum talað fyrir þessum samþykktum um bætt starfsöryggi launafólks séum að mæla með því að stjórnendur fyrirtækja eigi hreinlega ekki að geta losað sig við starfsmenn ef þeir ekki standa sig. Það var margítrekað í ræðu minni varðandi samþykktina um fjölskylduábyrgð og hafi ég ekki komið inn á það í framsöguræðu með þessari tillögu þá get ég gert það nú, að það er enginn að tala um að starfsöryggi þýði að starfsmaður sem brýtur af sér í starfi eða sinnir ekki sínu starfi geti hangið á sínu starfi eins og hundur á roði.

Það eru vissulega dæmi þess frá Evrópulöndum, og þá dettur mér helst í hug Holland, að starfsöryggisreglur hafa gengið út í öfgar, a.m.k. að mínu mati, en það eru auðvitað matsatriði hvenær þær gera það. En ég get fullvissað hæstv. félmrh. um að það er langur vegur frá því að reglurnar á Íslandi verði eitthvað í þá veru að það sé farið að halla svo á atvinnurekendur að einhver hætta stafi af fyrir vinnumarkaðinn. Það er því miður þannig. Þess vegna þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því að með því að fullgilda þessa samþykkt um lágmarksreglur fyrir launafólk séum við að búa til einhverja óeðlilega kyrrstöðu á vinnumarkaði. Það er langt því frá.

Hæstv. félmrh. undrast að í einu orðinu skuli stjórnarandstöðuþingmenn fárast yfir að hann eða starfsmenn félmrn. séu of hliðhollir atvinnurekendum en í hinu orðinu megi þeir ekki vera hlutlausir. Þá er hann að vísa til þess að ég hef gagnrýnt mjög þá hlutleysisstefnu sem félmrn. hefur rekið um árabil varðandi fullgildingarmál samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það var rakið hér áðan hvers eðlis þetta samstarf er sem verið er að vísa til. Það er beinlínis gerð um það krafa, herra forseti, í stjórnarskrá og þeim reglum sem Alþjóðavinnumálastofnunin byggir á að stjórnvöld sem eru aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni hafi einhverja stefnu í þessum málum, að það sé einhver pólitík í gangi varðandi fullgildingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það er beinlínis ekki gert ráð fyrir því að stjórnvöld geti skýlt sér á bak við það að vera hlutlausir aðilar þegar kemur að því að fullgilda samþykktir. Það er mjög ódýr lausn og það hlýtur hver heilvita maður að sjá. Aðilar vinnumarkaðar eru tveir ólíkir aðilar sem hafa ólíkra hagsmuna að gæta --- og þetta veit ég að hæstv. félmrh. veit. Hann hefur eflaust komist rækilega í kynni við það á sínum ferli sem félmrh. Þarna er um ólíka hagsmuni að ræða og þríhliða samstarfið byggir beinlínis á því að þessir ólíku hagsmunaaðilar, annars vegar atvinnurekenda og hins vegar launafólks, ræði mál sín í þessari nefnd og ræði við stjórnvöld, en síðan er það stjórnvalda að taka afstöðu og taka af skarið í málum þegar ágreiningur er milli þessara tveggja andstæðu póla. Ég er ansi hrædd um að þó það sé mikilvægt fyrir hæstv. félmrh. að kynna sér málefni beggja aðila þá sé jafnmikilvægt fyrir hann að taka einhvern tímann afstöðu í málum þegar til kastanna kemur. Öðruvísi verður víst lítið um framfarir.

Það má kannki spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann sé ánægður sjálfur með þær samþykktir sem hafa verið fullgiltar. Hefur hæstv. félmrh. kynnt sér þær samþykktir sem hafa verið gerðar á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á síðustu árum? Hvað finnst honum um þær? Telur hann sérstaka ástæðu til að skoða einhverja þeirra, og fullgildingu á einhverri þeirra? Ég heyrði hæstv. félmrh. a.m.k. ekki segja að hann væri tilbúinn að skoða fullgildingu á þessari samþykkt. En ég heyrði hann hins vegar segja að hann væri tilbúinn að skoða málið ef réttar reyndust þær fullyrðingar sem hér hefðu verið hafðar í frammi um að launafólk væri órétti beitt varðandi uppsagnir í einhverjum tilvikum. En ef veröldin skyldi nú líta öðruvísi út en hæstv. félmrh. heldur eða hefur a.m.k. haldið hingað til skal ég ekki láta standa á mér með að koma með dæmi og ég er viss um að samtök launafólks eru tilbúin til að koma með mun fleiri dæmi, koma með dæmi sem eru að gerast þessa dagana til þess að fullvissa hæstv. félmrh. Ég verð að segja það eins og er að ég hefði haldið að það væri að minnsta kosti skylda hæstv. félmrh. að kynna sér þær reglur sem fyrir hendi eru. Ég undrast að það skuli gerast að hæstv. félmrh. skuli verða uppvís að því úr þessum ræðustóli að hann þekki ekki þær grundvallarreglur sem gilda um uppsagnir launafólks á Íslandi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er gjörsamlega steinhlessa yfir því.

En ég tek áskorun hæstv. félmrh. alvarlega um það og hann skal fá dæmin. Þau skal ekki skorta á næstunni. Ég vona að hann láti nú verða af því að gefa sér tíma til að skoða þessi mál vegna þess að hér er um að ræða grundvallaratriði sem samtök launafólks og allir sem hafa komið nálægt réttindamálum launafólks á Íslandi vita að skipta öllu máli fyrir launafólk þegar upp er staðið.