Uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 15:25:37 (4588)

1997-03-18 15:25:37# 121. lþ. 92.8 fundur 200. mál: #A uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:25]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér fannst nú skelfing að hlusta á þessa síðustu ræðu. Það er eins og reynsluheimur hv. þm. sé töluvert frábrugðinn mínum. Enda hefur það komið fram hér í umræðunni að ég er frekar bjartsýnn. Það er eins og hv. þm. hafi einhverja sannfæringu fyrir því að atvinnurekendur séu upp til hópa einhverjir skúrkar og þeir hljóti að vera siðlausir menn sem verði að handjárna í bak og fyrir með lögum og reglugerðum. Það getur vel verið að í þeirra hópi finnist skúrkar og það þurfi að taka á þeim. Ég held hins vegar að það sé ekki almenn regla að atvinnurekendur séu eitthvað sérstaklega mikið verri en aðrir menn. En það getur vel verið að nauðsynlegt sé að fullgilda þessa samþykkt og eins og ég sagði við upphaf þessarar umræðu finnst mér það koma vel til greina ef um brögð er að ræða að menn fari ekki siðsamlega að.

Reynsla mín úr starfi félmrh. og reyndar sem þingmanns og bónda er sú að það sé ekki algengt að hér sé um ósæmilega hegðun að ræða. Þar af leiðandi verð ég ekkert uppnæmur þótt ég hlusti á svona ræður og vil biðja hv. þm. að taka gleði sína eftir því sem hægt er og líta pínulítið bjartari augum á tilveruna.