1997-03-18 15:50:43# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er býsna merkilegt mál á ferðinni og svo virðist sem fregnir af kaupum Landsbankans á 50% hlutafjár í VÍS hafi komið mjög á óvart og valdið miklum óróa á fjármálamarkaðnum. Það hlýtur öllum að vera ljóst hvað Landsbankinn er að gera. Hann er að búa sig undir framtíðina, bregðast við breytingum og aukinni samkeppni, m.a. milli banka og tryggingafélaga, sem sum hver stunda umtalsverða lánastarfsemi, t.d. vegna bílakaupa og bílasölu. Samkvæmt mínum heimildum hafa lengi verið áform uppi um það innan Landsbankans að fara út í tryggingastarfsemi og hefur þar sérstaklega verið horft til líftrygginga. Það er svo annað mál, herra forseti, hvort útspil Landsbankans er eðlilegt í ljósi þess sem fram undan er og hvaða áhrif það muni hafa. Einnig hvernig það tengist áformun hæstv. fjmrh. um breytingar á lífeyriskerfiu þar sem meiningin er að bjóða upp á frjálst val að einhverjum hluta þannig að fólk geti ávaxtað lífeyri sinn að eigin vali t.d. hjá hinni nýju tryggingadeild Landsbankans.

Það er afar athyglisvert hvernig Sjálfstfl. kemur að báðum endum þessa máls en eins og hér hefur komið fram er formennskan í bankaráðinu í höndum sjálfstæðismanns og hæstv. fjmrh. tilheyrir þeim sama flokki sem kunnugt er. Hvert er samhengið þarna á milli, hæstv. forseti? Hvaða og hverra hagsmuna er verið að gæta? Er þetta eðlileg þróun en eins og fram hefur komið varð samstaða um þessa aðgerð innan Landsbankans, eða erum við einfaldlega að horfa upp á sívaxandi baráttu um fjármagnið og sparifé landsmanna um leið og miklar breytingar eru fyrirhugaðar á ríkisbönkunum? Landsbankinn í dag er orðinn allt annar en hann var fyrir nokkrum dögum. Við þessum spurningum þurfum við að fá svör, hæstv. forseti, og það er fyrirhugað að ganga eftir þeim svörum í hv. efh.- og viðskn. En þetta mál er allt hið athyglisverðasta en býsna erfitt er að átta sig á hvaða þýðingu það hefur.