1997-03-18 15:55:31# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:55]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að þær ráðstafanir sem gerðar voru á föstudaginn eru til hagsbóta fyrir Landsbankann til lengri tíma litið og því ástæðulaust að tortryggja forsvarsmenn bankans hvað þetta varðar. Hins vegar, vegna þeirra afskipta sem Alþingi ber að hafa af ríkisbönkunum ef eiginfjárstaða þeirra er ekki sú sem kröfur eru gerðar um, er nauðsynlegt að við fáum allar upplýsingar um þau viðskipti sem felast í kaupsamningnum vegna þess að talsmenn bankans hafa talað misvísandi í fjölmiðlum um hvað þessi viðskipti hafa í för með sér, þannig að okkur sé fullkomlega ljóst hver staða bankans verður eftir að viðskiptin hafa átt sér stað.

Við verðum hins vegar líka að gera okkur grein fyrir því að ef þessi viðskipti standast og bankinn stenst eiginfjárkröfur eftir að viðskiptin hafa átt sér stað þá verða gríðarlegar breytingar á fjármálamörkuðunum. Aðrir bankar munu leika sama leikinn og gera svipaða samninga úti á markaðnum við aðra aðila og þannig mun eiginfjárstaða þeirra batna um hundruð milljóna og efnahagsreikningur þeirra getað þanist út sem því nemur. Þetta leiðir líka í ljós hvað það er annkannaleg staða hér á fjármálamarkaðnum að hluti er í eigu ríkisins og hluti í eigu sjóða, einkaaðila og fyrirtækja. Það skapar þá stöðu eins og kom fram hjá einum bankastjóra hlutafélagabankans að ríkisbankarnir geta keypt hlut í öðrum en enginn getur keypt hlut í þeim. Þess vegna er nauðsynlegt í framhaldi af þessu að hraða einkavæðingunni og ekki stíga einhver skref bara til hálfs, það hefur aldrei verið til farsældar.

Hvað varðar lífeyrissjóðina og lífeyrismarkaðinn (Forseti hringir.) þá er algjörlega ljóst að fjármálamarkaðurinn verður ekki að fullu samkeppnisvæddur eins og hv. þm. Ágúst Einarsson kallaði það, fyrr en þeir sem greiða iðgjöld í sjóðina hafa frjálst val um það í hvaða sjóði þeir greiða.