1997-03-18 16:00:24# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Þessi stórtíðindi í íslenskum viðskiptaheimi eru í senn bæði brosleg en um leið grafalvarleg. Brosleg náttúrlega vegna þess að við erum mitt í umræðu hér á hinu háa Alþingi um einkavæðingu á fjármagnsmarkaði og því er ekki að undra þótt fjölmargir stjórnarliðar og málsvarar einkavæðingar séu eilítið ruglaðir í ríminu þessa dagana þegar fréttir berast á þessari helgi um stórfellda ríkisvæðingu stofnana á fjármagnsmarkaði, ríkisvæðingu sem þýðir það eitt að Landsbanki Íslands, stærsta einstaka eign ríkissjóðs úti á markaði, kaupir helminginn af stærsta tryggingafyrirtækinu. Er að undra þótt menn ruglist eilítið í ríminu?

Málið er hins vegar grafalvarlegt þegar til þess er litið að við viðskipti af þessum toga, þar sem milljarðar skipta um hendur þótt ekki sé einsýnt um það hvaðan þeir peningar eigi að koma, hver eigi að láta þá af hendi eða taka við þeim yfirleitt, þá verða engu að síður stórfelldar breytingar á eignarhlutdeild á tryggingamarkaði annars vegar og í bankaheiminum hins vegar. Og það segir okkur og sýnir sem við stjórnarandstæðingar margir hverjir höfum bent á ítrekað í umræðum um bankamál hér á Alþingi og munum gera áfram að það eru auðvitað örfáir einstaklingar þegar allt kemur til alls sem ráða ferðinni í þessum efnum. Spurningin sem vaknar er hins vegar þessi: Eru þessi tíðindi helgarinnar til þess fallin að flýta fyrir einkavæðingarferlinu eða er þetta fráhvarf frá því ferli og í raun stefnubreyting af hálfu ríkisstjórnarinnar? Þetta verður auðvitað að fást skýrt. Spurningin er líka þessi sem hæstv. starfandi forsrh. verður að svara: Er von á meiru af þessu tagi? Er ráðherrum ríkisstjórnarinnar kunnugt um að þeir búnaðarbankamenn til að mynda séu í viðræðum við fyrirtæki úti í bæ og ætli sér kannski um næstu helgi að bæta enn við og auka enn frekar við ríkisvæðinguna miklu mitt í allri einkavæðingunni?