1997-03-18 16:06:01# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér eru gefnar misvísandi og mótsagnakenndar yfirlýsingar annars vegar af hálfu hæstv. fjmrh. og hins vegar hæstv. félmrh. Annar lýsir því yfir, hæstv. fjmrh., að til standi að setja lífeyrissjóðunum í landinu, samtryggingarsjóðunum þröngar skorður. Hann lýsti því hér áðan í upphafi síns máls. 10% iðgjald ætti að fara inn í samtryggingarsjóði. Síðan ætti það að vera komið undir hverjum einstaklingi hvað gert yrði við það sem kæmi þar ofan á. Þessu lýsti hæstv. fjmrh. yfir áðan, að lífeyrissjóðunum yrðu settar skorður með þessum hætti. Og ég tek undir þá spurningu sem hv. þm. Svavar Gestsson beindi til fjmrh. hér áðan: Hvað með þá lífeyrissjóði sem þegar hafa samið um og reyndar verið fest í lög að greitt verði 15,5% iðgjald? Hvað verður með þetta, hvað verður með þær greiðslur?

Við vitum að lífeyrissparnaður er uppistaðan í heildarsparnaði landsmanna. Hér er um mjög mikið fjármagn að ræða sem fjármálafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki í landinu hafa lengi ásælst. Þessir aðilar hafa viljað fá ríkisstjórnina í lið með sér til þess að ná í þetta fjármagn og samkvæmt þeim fréttum sem borist hafa úr fjmrn. þá hafa þessir aðilar haft árangur af sínu erfiði. Það hefur reyndar ekki kostað mikið erfiði fyrir fjármálafyrirtækin í landinu að fá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á sveif með sér. En hitt er svo annað mál og ég vil vekja athygli á því að ef einstaklingsbundnir lífeyrisreikningar eru á kostnað samtryggingar, þá eru þeir á kostnað örorkubóta, þeir eru á kostnað barnabóta og þeir eru á kostnað makabóta. Og sú spurning sem hæstv. fjmrh. verður að svara hér er: Stendur virkilega til eins og hann reyndar gaf til kynna í upphafi síns máls að setja lífeyrissjóðunum einhverjar skorður? Þetta er spurningin. (Forseti hringir.) En krafan stendur eftir af hálfu allrar verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Engar breytingar á lífeyriskerfinu án samninga við hana.