Læsivarðir hemlar í bifreiðum

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:06:37 (4611)

1997-03-18 17:06:37# 121. lþ. 92.14 fundur 209. mál: #A læsivarðir hemlar í bifreiðum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:06]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er kannski oft þegar maður kemur í þennan ræðustól að maður talar kannski ekki alveg tæpitungulaust en ég ætla ekki að gera það núna. Ég viðurkenni það alveg að oftar en ekki verður mér hugsað þegar stoppað er á rauðu ljósi og litið í kringum sig á þá bíla sem í kringum mann eru, einmitt eins og síðasti ræðumaður kom hér réttilega inn á, þá má oftar en ekki sjá ungt fólk með kannski tvö og þrjú börn í bifreiðum sem eru þannig úr garði gerðar að það er umhugsunarefni hvort eigi að leyfa innflutning á þeim. Nú er eitthvert tískufyrirbrigði að flytja inn mikið af mjög litlum bifreiðum sem nánast eru allt að því óhugnanlegar í þessari miklu og hröðu umferð sem er í höfuðborginni. Enda hefur það líka sýnt sig að þegar árekstrar hafa orðið þar sem þessar litlu bifreiðar hafa kannski lent á milli tveggja bíla að það er ekki mikið eftir af þeim. Það er auðvitað kapítuli út af fyrir sig.

Hitt er svo annað, eins og réttilega var komið inn á hér áðan, að læknisaðgerðir á þeim sem lenda í slysum oft á hinum minni bifreiðum kosta auðvitað þjóðfélagið mikla peninga. Það er alveg rétt að það eru eðlileg viðbrögð ríkisvaldsins vegna þeirrar miklu slysatíðni sem er í umferðinni að bregðast þannig við að gera fólki kleift að kaupa öruggari og stærri bifreiðar til að forða alvarlegum slysum. Eins komið var inn á áðan er öruggt mál til lengri tíma litið að það mun spara þjóðfélaginu fjármuni og, sem mestu máli skiptir auðvitað, það mun fækka slysum. Ég er sannfærður um að það mun verða mjög mikil bót og þess vegna, eins og ég sagði áðan, lýsi ég stuðningi mínum við þetta mál.