Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:09:14 (4612)

1997-03-18 17:09:14# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:09]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Hér er flutt frv. til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum. Auk mín eru flm. Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson og Kristján Pálsson.

Í 1. gr. þessa frv. segir svo:

,,Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að fella niður stimpilgjöld af kaupsamningum, veðböndum og afsölum kaupskipa á árinu 1997.``

Í grg. segir m.a. svo:

,,Í 6. gr. fjárlaga hefur lengi tíðkast að veita fjármálaráðherra heimild til að fella niður stimpilgjöld sem stofnað er til í tengslum við kaup eða leigu á flugvélum. Sambærilegar heimildir hafa ekki verið til staðar varðandi kaupskip.

Hér er lagt til að þessi mismunun verði leiðrétt þannig að við stimpilgjaldslögin bætist sérstakt ákvæði til bráðabirgða með heimild til að fella niður stimpilgjald í tengslum við kaup slíkra skipa á árinu 1997. Flutningsmenn telja eðlilegt að slíkt ákvæði verði síðan tekið inn í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1998.

26 kaupskip eru nú í rekstri íslenskra útgerða, aðeins fjögur undir íslenskum fána og eru tvö þeirra í eigu olíufélaganna. 18 skip eru í eigu íslenskra kaupskipaútgerða en átta skip eru í leigu hjá útgerðunum.``

Með leyfi forseta vildi ég mega vitna hér til greinar úr Verinu sem birtist í Morgunblaðinu 23. jan. 1997. Hér segir í fyrirsögn: Refsað fyrir að eiga skip.

,,Í nágrannalöndunum eru skráningargjöld af þessu tagi mun lægri og í Noregi greiða útgerðir því sem nemur 6.000 íslenskum krónum í gjald fyrir hvert skip, óháð stærð þess eða andvirði. Einar Hermannsson, hjá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, segir þessi háu gjöld meðal annars hafa ýtt undir þá þróun að kaupskip hætti að sigla undir íslenskum fána. Hann segir að ef gjöldin væru lægri og vænlegra væri að gera út kaupskip hér á landi, myndu útgerðir nota eigin skip í hærra hlutfalli í stað leiguskipa. ,,Það má segja að mönnum sé beinlínis refsað fyrir að vera með skip undir íslenskum fána. Svokallaður skráningarkostnaður er margþættur en það er ekki hægt að segja að siglingamálayfirvöld séu að innheimta óeðlilega háar upphæðir. Kostnaðurinn liggur fyrst og fremst í stimpilgjöldunum sem er í raun skattur sem innheimtur er af fjármálaráðuneytinu. Við höfum ítrekað leitað til ráðuneytisins um niðurfellingu á þessum gjöldum í samræmi við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það hefur hins vegar ekki fengið mikið hljómgrunn,`` segir Einar.``

Eins og ég kom inn á áðan þá hefur framkvæmdastjóri Sambands íslenskra kaupskipaútgerða lýst því yfir að ástæða þess að svo fá skip séu skráð undir íslenskum fána sé fyrst og fremst óeðlilega há skráningargjöld hér á landi sem nemi milljónum króna á meðan kaupskipaútgerðir í Noregi greiði aðeins um 6.000 íslenskra króna í gjald á hvert skip.

Nauðsynlegt er að grípa í taumana og lækka stimpilgjöld hér á landi svo að um ókomin ár megi kaupskip undir íslenskum fána sjást sem víðast. Öflugur íslenskur kaupskipafloti er einn þáttur í sjálfstæði þjóðarinnar og því er rétt að stuðla að því að sem flest kaupskip í eigu íslenskra útgerða sigli undir íslenskum fána. Sem fyrr kemur fram eru 18 kaupskip í eigu íslenskrar kaupskipaútgerðar skráð erlendis. Nái þetta frumvarp fram að ganga má ætla að þau skip verði skráð á Íslandi. Í engu mundi ríkissjóður verða af tekjum við samþykkt þessa frumvarps nema síður yrði, enda nánast engar skráningar á kaupskipum hér á landi hin síðari ár.

Með kaupskipum er hér átt við skip sem notuð eru til flutnings á farmi gegn endurgjaldi en geta jafnframt flutt 12 farþega eða færri í samræmi við alþjóðlegar reglur, sbr. skilgreiningu í 2. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum.

Herra forseti. Í svari við fyrirspurn til samgrh. fyrir ekki löngu um hver réttarstaða íslenskra sjómanna sem sigla á leiguskipum íslenskra útgerða undir erlendum fána væri kom fram að íslenskir sjómenn á slíkum skipum njóta í engu þeirra réttinda sem íslensk sjómannalög kveða á um. Þess vegna m.a. hafa félög sjómanna og farmanna lýst stuðningi við þetta frv. og telja að með framgangi þess megi vænta, eins og fram hefur komið í orðum framkvæmdastjóra Sambands ísl. kaupskipaútgerða, að skipum undir íslenskum fána muni fjölga. Þá um leið verði öryggi íslenskra sjómanna aukið með það að leiðarljósi að þeir muni þá sigla samkvæmt íslenskum sjómannalögum og siglingarlögum sem er hin mesta nauðsyn að verði. Auk þess, eins og ég kom inn á áðan, er það mjög nauðsynlegt að við eflum íslenska kaupskipaflotann. Hér er ekki um stórt peningamál að ræða af hálfu ríkisins enda er ekki um neinar nýskráningar að ræða eins og ég gat um áðan og þess vegna er ekki um neitt tekjutap hjá ríkinu að ræða. Hins vegar er réttarstaða íslenskra farmanna þá tryggð og hún verður önnur og betri ef þetta frv. nær fram.

Virðulegi forseti. Um leið og ég vísa málinu til 2. umr. tel ég eðlilegt að þessu frv. verði vísað um leið til efh.- og viðskn.