Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:35:06 (4618)

1997-03-18 17:35:06# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hér féllu um dugmikla íslenska fiskimenn og sjómenn, um afköst þeirra og að þeir séu samkeppnisfærir. Ég tek undir það. Ég tek líka undir það að auðvitað vorum við komin út fyrir frv. um stimpilgjöld í þeirri umræðu sem hér fór fram. En þetta er mjög þörf umræða og væri fróðlegt að taka hana við aðrar aðstæður því að þessar aðstæður munu að óbreyttu hitta okkur fyrir innan tíðar með mjög mikilli hörku. Ég geri mér alveg grein fyrir því að félagsleg ákvæði í samningum geta verið tvíeggjuð. En það er mjög auðvelt að koma með rök af því tagi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með að það auki atvinnuleysi ef gerð er tilraun til þess að skapa fólki réttindi eða hækka laun. Þetta hefur líka verið notað hér hjá okkur þegar talað hefur verið um það að hækka launin. Það er mjög hættulegt að byrja þá umræðu að eitthvað sem sé fært til betri vegar verði þá til þess að aðrir líði fyrir það.

Ég held að okkar ábyrgð á umheiminum sé að verða svo mikil að á næstu árum munum við ekki komast fram hjá þessum atriðum sem ég reifaði hér.