Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 18:07:03 (4624)

1997-03-18 18:07:03# 121. lþ. 92.21 fundur 390. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:07]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er till. til þál. sem er allra góðra gjalda verð. Vissulega hefur það verið í umræðunni um langan tíma og staðreynd ef tekið er mið af því sem sjómenn hafa sjálfir sagt að það er tilhneiging til að henda talsverðu af afla í sjó og kemur þar margt til eins og hv. flm. kom inn á. Hins vegar verð ég að viðurkenna með sjálfum mér að hann verður vandrataður þessi meðalvegur eins og hv. flm. leggur til, þ.e. annars vegar að finna hvata til þess að sjómenn komi með allan afla að landi og síðan aftur að skilgreina að það sé ekki of mikið greitt fyrir hann en heldur ekki of lítið þannig að markmið þessarar þáltill. nái fram að ganga. En eins og ég sagði í upphafi er þessi þáltill. allra góðra gjalda verð. Vissulega er þetta vandamál sem sjútvrn. stendur frammi fyrir. Það hefur oft verið rætt í sjútvn. hvernig með þetta skuli fara en menn hafa ekki fundið hina eiginlegu lausn á þessu vandamáli.

Þetta mál mun koma til hv. sjútvn. þar sem ég á sæti og þar mun það vissulega verða tekið til umfjöllunar. Ég veit að það er góður hugur á bak við það og menn vilja leysa þetta mál á þann hátt sem þáltill. hljóðar upp á. Það er svo spurning hvaða vegur verður farinn í því efni. En vissulega stöndum við frammi fyrir þessu máli. Því miður er of miklu af afla hent í sjóinn og vonandi að okkur takist innan ekki langs tíma að finna flöt á því hvar hinn gullni meðalvegur liggur og að okkur hér á hinu háa Alþingi og sjómönnum muni sameiginlega takast að rata þann veg að einhver lausn fáist í þessu mikla vandamáli.