Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:37:05 (4627)

1997-03-19 13:37:05# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:37]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þm. um að hans tillaga verður tekin fyrir félmn. eins og aðrar tillögur sem þar liggja fyrir, en það er að sjálfsögðu á valdi meiri hluta nefndarinnar hversu hraða eða hvernig afgreiðslu málið fær.

Það sem mig langaði hins vegar að víkja að er þetta atriði sem fram kom í hans máli með það að kjarasamningar hafi verið felldir í gærkvöldi af stóru samninganefnd Dagsbrúnar og Framsóknar. En nú er nefnilega einmitt farið að reyna á þau lög sem voru samþykkt sl. vor um stéttarfélög og vinnudeilur og ég fæ ekki betur séð þegar ég les lagatextann en að stóra samninganefndin hafi ekki umboð til þess að fella eða samþykkja neitt. Það segir í lögunum, með leyfi forseta:

,,Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- og félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.``

Þannig hljóðar lagatextinn og það er ljóst samkvæmt honum að gerður samningur gengur í gildi og þarf að bera hann undir atkvæði félagsmanna. Það er nákvæmlega það sem var verið að fjalla um hér sl. vor og var m.a. bent á að verið væri að gera afgreiðslu kjarasamninga miklu þyngri í vöfum. Það sem getur nú gerst er að þessi kjarasamningur fari til almennrar atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum Dagsbrúnar og Framsóknar og þar gerist það sama, að hann verði felldur. Þetta er mjög sérkennilegt ferli sem hér er hafið miðað við reynslu fyrstu árin. Ég skal viðurkenna það að ég heyrði ekki hádegisfréttir og veit ekki hvort ríkissáttasemjari hefur fellt einhvern dóm í þessu máli en svona hljóðar lagatextinn.