Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:39:26 (4628)

1997-03-19 13:39:26# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:39]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég held satt að segja að þetta síðasta sé pínulítill misskilningur vegna þess að staðan er þannig að samninganefnd Dagsbrúnar hafði öll umboð í þessu máli í sjálfu sér og lögin frá því í vor, þótt vitlaus séu, breyta engu um þetta atriði, enda mun það hafa orðið niðurstaðan sl. nótt í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og sáttasemjara að algerlega ástæðulaust væri að velta vöngum yfir þessu vandamáli sérstaklega.

Ég kom hins vegar upp, herra forseti, til þess að taka undir það með hv. þm. Gísla Einarssyni að kjaramálin verði almennt mikið á dagskrá. Alþingi þarf að láta það finnast og koma fram að það tekur eftir því sem er að gerast úti í þjóðfélaginu. Auðvitað er það alveg ljóst að útspil ríkisstjórnarinnar síðustu daga hefur spillt fyrir samningum. Þau hafa vakið tortryggni í verkalýðshreyfingunni í landinu, vakið tortryggni hjá aðilum vinnumarkaðarins og samninganefndunum, bæði stórum og smáum. Þetta á við um tilboðið um vaxtabætur, sem var algerlega fráleitt, reyndist vera vitlaust reiknað meira að segja. Í öðru lagi á þetta við tilboðið um barnabætur, sem reyndist vera allt annað heldur en fullyrt var, og það alvarlegasta og sem veldur mestri óánægju í stöðunni í dag er yfirvofandi hótun ríkisstjórnarinnar um að rífa lífeyrissjóðina af verkalýðshreyfingunni í landinu eftir 27 ára uppbyggingu þeirra sjóða samkvæmt samningunum 1970. Það er þessi árás ríkisstjórnarinnar á verkalýðshreyfinguna sem veldur því að fólk þorir ekki að fallast á þau samningsdrög sem liggja fyrir. Það er veruleikinn.

Auk þess er það þannig, eins og hv. þm. Gísli Einarsson benti á og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, að lögin sem voru sett hér sl. ár eru þegar farin að spilla fyrir vegna þess að samningsferlið er þunglamalegra, flóknara og erfiðara og skapar meiri illindi en ella væri þörf á milli aðila vinnumarkaðarins vegna þess hvernig þar er að hlutunum staðið. Þess vegna tek ég undir það með hv. þm. Gísla Einarssyni, herra forseti, að kjaramálin verði rædd hér rækilega sem aðalmál næstu daga vegna þess að það er bersýnilegt að ríkisstjórnin er alls staðar til bölvunar þar sem hún kemur nálægt þeim málum.