Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:47:00 (4632)

1997-03-19 13:47:00# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til þess að leiðrétta misskilning sem kom fram hjá hv. formanni félmn. Sá hópur Dagsbrúnar- og Framsóknarfólks sem kom saman til að fjalla um samningsdrögin gærkvöldi er samninganefnd þessara félaga. Þegar frá samningsdrögunum var gengið var ritað í textann að þessi samningsdrög yrðu lögð fyrir samninganefnd Dagsbrúnar og Framsóknar og á þeim fundi réðist hvort samninganefnd Dagsbrúnar og Framsóknar hefði gengið frá sínum málum. Þetta stóð í textanum að þeim drögum að samkomulagi sem fram var lagt og þessi málsmeðferð var samþykkt af vinnuveitendum. Það er því ljóst að þrátt fyrir ákvæði hinna nýju laga liggur það fyrir að Dagsbrún og Framsókn hafa staðið eðlilega að öllu leyti að samningamálum sínum og það er alveg fráleitt að halda því fram að þau séu skuldbundin til þess að bera þessi samningsdrög undir allsherjaratkvæðagreiðslu í félögunum.

Ég vil síðan aðeins taka undir með hv. þm. Gísla Einarssyni og Ágústi Einarssyni og benda á, virðulegi forseti, að í tveimur vestrænum löndum eru í gildi lög um lágmarkslaun, bæði í Frakklandi og í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Clinton forseti hefur ekki alls fyrir löngu hækkað þann lágmarkstaxta sem hin bandarísku lög gera ráð fyrir. Það er ekkert óeðlilegt að Alþingi Íslendinga hafi skoðun á því hver vera skulu lágmarkslífskjör í landinu. Slíkt frv. hefur verið lagt fram á Alþingi og Alþingi á að sjálfsögðu að fjalla um það með eðlilegum hætti, ekki síst eftir að hæstv. ríkisstjórn er gersamlega búin að klúðra þessum samningamálum með því að leggja fram tilboð í skattamálum sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur viðurkennt að sé að hluta til mjög ósannfærandi. Hæstv. forsrh. tók þannig til orða að rök Alþýðusambandsins gegn þeirri meðferð sem vaxtabótakerfið sætir í þessu tilboði séu mjög sannfærandi sem þýðir það að hæstv. félmrh. er í hans augum mjög ósannfærandi.