Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:52:17 (4634)

1997-03-19 13:52:17# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það hefur komið á daginn eins og fyrir var spáð að þau arfavitlausu lög sem samþykkt voru hér í maí sl. um vinnulöggjöfina hafa reynst þrándur í götu þessara kjarasamninga, hafa reynst það í öllum aðdraganda þeirra og núna þurfa menn að eyða dýrmætum tíma í það að rífast um formið en ekki efnið þegar allt logar í vinnudeilum og verkföllum. Ekki meira um það, virðulegi forseti. (Félmrh.: Hverjir eru það?) Hæstv. ráðherra gat um það sjálfur og hefur vafalaust fylgst með því í fréttum eins og við hinir hér að framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins er með efasemdir um að viðræðunefnd Dagsbrúnar og Framsóknar hafi eiginlega samninganefnd að baki sér og ætlar sér að blanda sér í innri mál verkalýðshreyfingar eins og hæstv. félmrh. opnaði fyrir með þessum arfavitlausu lögum frá í fyrravor.

Meginmálið hér er það, virðulegi forseti, að þingið láti sig þessi mál varða miklu skeleggar en verið hefur. En ríkisstjórnin hefur komið að málum á vitlausum tíma með vitlausar tillögur og það er auðvitað mikilvægt að þingið taki ráðin af henni og komi að þessum málum beint.

Það er líka hárrétt sem málshefjandi í þessari umræðu um störf þingsins gat um að skurðarpunkturinn í þessu máli öllu eru lágmarkslaunin, 70 þús. kr. sem eru til umfjöllunar í hinu háa Alþingi í félmn. Það er engin spurning um það á þessum tíma, hvað sem mönnum finnst annars um beina eða óbeina aðild löggjafarþingsins að þessum málum, að hv. félmn. verður að fara í þessa vinnu nú þegar. Það er um þetta sem er deilt. Þetta er álitaefnið og umfjöllunarefnið í þinginu og það má engan tíma missa í þeim efnum. Þingið getur ekki setið eftir þegar þjóðin öll er að ræða einmitt þau hin sömu mál.