Staðan í samningamálum

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:56:43 (4636)

1997-03-19 13:56:43# 121. lþ. 93.91 fundur 259#B staðan í samningamálum# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:56]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í upphafi að tillaga hv. þm. verður að sjálfsögðu tekin fyrir í hv. félmn. En það vill svo til að þingið er að fara í páskaleyfi og þar af leiðandi er heldur ólíklegt að það takist að afgreiða tillöguna á allra næstu dögum en hún mun að sjálfsögðu fá eðlilega meðferð eins og aðrar tillögur.

Vegna þess sem hér hefur fram komið um lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, þá gleður það mig ef rétt er að um það hafi verið samið af samninganefnd Framsóknar og Dagsbrúnar að undirskriftir væru með fyrirvara um samþykki stóru samninganefndarinnar vegna þess að það segir í lagagreininni sem ég vitnaði til áður að ... (Gripið fram í.) já, af fulltrúum samningsaðila, gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið. Samkvæmt því sem hér hefur komið fram hefur verið samið um þennan fyrirvara og ég fagna því svo sannarlega. Hins vegar er það ekki rétt sem fram kom hjá félmrh. að það mundi ekki breyta neinu hvort um slíkt hefði verið samið því að það gefur auga leið að eins og lögin voru áður þegar samningarnir hreinlega gengu í gildi og verkfalli var aflýst, þá er þetta orðið miklu lengra ferli en það var áður. (Gripið fram í: Það er lykilatriði.) Já, það er alveg lykilatriði í þessum málum. Þetta voru m.a. fulltrúar opinberra starfsmanna að benda á að þeir þekktu þetta vonda fordæmi en það var ákveðið að fara þá leið engu að síður.