Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:02:23 (4638)

1997-03-19 14:02:23# 121. lþ. 93.1 fundur 375. mál: #A húsaleigubætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég skipaði í maí sl. starfshóp í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga til að gera tillögur um framtíð húsaleigubótakerfisins. Í þessum starfshópi sitja Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, Karl Björnsson, bæjarstjóri á Selfossi, þau eru fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga, Arnar Jónsson, stjórnsýslufræðingur í fjmrn., Áslaug Friðriksdóttir, deildarsérfræðingur í félmrn. og Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., sem jafnframt er formaður starfshópsins.

Í ágúst sl. samþykkti ríkisstjórnin að leita eftir því að sveitarfélögin tækju alfarið yfir húsaleigubótakerfið. Eftir viðræður sem ég átti ásamt fjmrh. við formann og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga gerðum við samkomulag um að stefna sameiginlega að því að sveitarfélögin taki alfarið yfir húsaleigubæturnar um áramótin 1997/1998 og frá þeim tíma hefur starfshópurinn um húsaleigubæturnar tekið mið af þessu samkomulagi í störfum sínum.

Það var ákveðið á sama fundi í fyrrasumar að húsaleigubótakerfið yrði óbreytt á þessu ári, þ.e. 1997, á meðan unnið yrði að endurskoðun laganna. Starfshópur þessi er að ljúka víðtækri upplýsinga- og gagnaöflun er lýtur að greiðslu húsaleigubóta, leigumarkaði og leigjendum. Starfshópurinn hefur notið aðstoðar frá Þjóðhagsstofnun og einnig hefur Samband ísl. sveitarfélaga unnið að upplýsingum um leigu\-ibúðir sveitarfélaga. Það þarf að endurskoða þessi lög áður en sveitarfélögin taka við þeim og ætti að gefast tími til þess á haustþingi. Starfshópurinn lýkur senn störfum og það er verið að yfirfara tillögur eftir því sem ég best veit og meta tilkostnað og skoða einnig samhengi hlutanna í félagslega kerfinu. En ég get ekki á þessari stundu fullyrt hver niðurstaða starfshópsins verður eða hvaða tillögur hann kemur til með að leggja fram.

Ég hef hins vegar ekki legið á mínum persónulegu skoðunum um þetta mál. Ég tel að húsaleigubæturnar hafi sannað gildi sitt. Ég tel að þær eigi rétt á sér og ég vil nauðugur sjá þær lagðar niður. Ég tel persónulega að heppilegast væri að þær væru greiddar í öllum sveitarfélögum og líka á leiguíbúðum í eigu sveitarfélaganna. Eins þykir mér eðlilegt að huga að skattlagningu húsaleigubóta.

Hvað 2. lið spurningarinnar varðar, þá er ekki búið að ganga frá því hvaða verkefni ríkið yfirtekur frá sveitarfélögunum á móti húsaleigubótunum sérstaklega. Þar kemur ýmislegt til greina, t.d. eru vinnumálin að færast til ríkisins og það getur komið inn í þennan reikning. Fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru mikil og það er líka hægt að gera þetta upp í sambandi við tekjustofna sveitarfélaga eins og gert var við grunnskóla. Ég tel að það sé rétt stefna að færa verkefni sem henta sveitarfélögunum nær fólkinu ef mögulegt er. Ég minni líka á málefni fatlaðra sem færast til sveitarfélaganna eftir 1. janúar 1999.

Það er hægt að hugsa sér að ríkið taki við einhverjum verkefnum frá sveitarfélögunum eins og við munum gera með vinnumiðlanirnar, en síðan er hægt líka að leggja til tekjustofna með þeim verkefnum sem sveitarfélögin taka við frá ríkinu.