Fíkniefnamál

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:55:41 (4660)

1997-03-19 14:55:41# 121. lþ. 93.6 fundur 429. mál: #A fíkniefnamál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:55]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Um þessar mundir er verið að vinna að því að koma í gagnið málaskrá lögreglunnar, þar sem er að finna upplýsingar um öll lögreglumál. Um 18 embætti af 28 eru nú tengd við þessa skrá sem er miðlæg og vistuð í tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Í skránni er m.a. að finna upplýsingar um kærumál og allan feril slíkra mála. Þar er hins vegar ekki að finna myndir af grunuðum brotamönnum. Hins vegar er í smíðum svokallað persónulýsingakerfi, en þar er ætlunin að hafa ítarlega upplýsingar um grunaða og dæmda afbrotamenn í miðlægu kerfi. Þær upplýsingar, þar með taldar myndir af dæmdum eða grunuðum brotamönnum, yrðu aðgengilegar öllum lögregluembættum í samræmi við reglur sem dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóri mundu móta. Slíkt miðlægt persónulýsingakerfi á tölvutæku formi hefur að sjálfsögðu marga kosti og getur reynst lögreglunni um allt land ómetanlegt við lausn brotamála. Eftir er að móta nánar hvaða reglur eigi að gilda um þær upplýsingar sem þar verði að finna, hverjir hafi aðgang að þeim og fleiri atriði.

Heimild til töku, meðferðar og geymslu ljósmynda hjá lögreglu er nú að finna í reglugerð nr. 152/1979. Þá reglugerð þarf að aðlaga og breyta í samræmi við breyttar aðstæður áður en framangreindu persónulýsingakerfi verður hleypt af stokkunum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík byggjast starfsvenjur lögreglu hvað þetta snertir, þ.e. þegar spurt er um upplýsingagjöf til foreldra og skólayfirvalda og vinnuveitenda, á ákvæði 14. gr. laga um vernd barna og ungmenna, þar sem segir að löggæslumanni sé skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis. Þegar brot eru framin annaðhvort af börnum eða ungmennum eða gegn þeim skal löggæslumaður þegar í stað tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn máls. Barnaverndarnefnd er skylt að tilkynna foreldrum barns ef mál sem varðar barnið er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum, enda mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því.

Í starfsvenjum lögreglu felst að fái lögreglan vitneskju um afbrot eða aðfinnsluverða hegðan barns, eða hvort tveggja beinist gegn barni, rita lögreglumenn skýrslu um málsatvik. Ef málið fer í rannsókn fer meðferð þess samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi hverju sinni. Í öllum tilvikum fær forvarnafulltrúi afrit af skýrslunni. Hann fer með afrit til viðkomandi barnaverndaryfirvalda, sem bregðast við í samræmi við venjur og reglur. Ef barn eða ungmenni hefur verið uppvíst að neyslu áfengis eða annarra vímuefna, hefur brotið ákvæði um bann við útivist, unnið skemmdarverk, verið staðið að hnupli eða öðru slíku broti, eru foreldrum þess jafnan send boð um að hringja eða koma til viðtals á lögreglustöð á tilteknum tíma. Þar er fyrir fulltrúi barnaverndaryfirvalda, sem ræðir mál barnsins við foreldrið. Í samráði við hann er síðan tekin ákvörðun um framhald málsins, sem fyrst og fremst á að taka mið af því að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Samstarf lögreglu við skólayfirvöld hefur aukist á síðari árum. Yfirleitt er samhliða því haft samstarf við viðkomandi félagsmálayfirvöld, sem einnig hefur aukist verulega á síðari árum. Oftar en ekki er um að ræða samstarf vegna ákveðinna viðfangsefna sem tengjast börnum og ungmennum, en í undantekningartilvikum er um að ræða samstarf í málum tiltekinna einstaklinga. Með upplýsingar vegna þess fer samkvæmt ákvæðum laga, svo sem varðandi þagnarskyldu. Samstarf þetta miðast að því að ná skjótari og betri árangri í einstökum viðfangsefnum og einnig að því að aðstoða og styrkja tiltekna einstaklinga, gerist þess þörf, samkvæmt þeim úrræðum sem lög og reglur kveða á um og heimila.

Lögregla gefur ekki upplýsingar um fíkniefnaneyslu einstaklinga til óviðkomandi aðila, en í þann flokk falla til að mynda vinnuveitendur viðkomandi. Ef ástæða er til að upplýsa þá aðila um mál þarf slík upplýsingagjöf að eiga sér skýra lagastoð.

Það er mitt mat að starfsvenjur lögreglu hvað þetta snertir séu eðlilegar og í samræmi við lög. Á lögreglunni hvílir skylda til að upplýsa barnaverndarnefnd um það þegar mál barns eða ungmennis er til meðferðar hjá lögreglu, barnaverndarnefnd upplýsir síðan viðkomandi foreldra og í tilteknum tilvikum ræðir lögreglan ásamt barnaverndaryfirvöldum beint við foreldra. Upplýsingaskylda lögreglu er að þessu leyti skýr og ótvíræð, og tel ég ekki eðlilegt að ríkari skylda verði lögð á lögreglu eða aðra aðila til að gefa upplýsingar um meint afbrot ungmenna, til að mynda skólum eða vinnuveitendum, meðal annars með hliðsjón af persónuverndarsjónarmiðum. Slík upplýsingagjöf er að sjálfsögðu ekki heimil nema á grundvelli skýrra lagaheimilda.