Endurskoðun laga um tæknifrjóvgun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:08:55 (4666)

1997-03-19 15:08:55# 121. lþ. 93.5 fundur 394. mál: #A endurskoðun laga um tæknifrjóvgun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um er kveðið á um það í ákvæði til bráðabirgða í lögunum um tæknifrjóvgun að dómsmrh. skipi þriggja manna nefnd sérfróðra aðila á sviði læknisfræði, lögfræði og siðfræði til að fylgjast með framkvæmd laganna og vinna að endurskoðun þeirra. Þessi nefnd var skipuð 22. október 1996. Í henni eiga sæti: Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem er formaður nefndarinnar, Konráð Lúðvíksson kvensjúkdómalæknir, sem er tilnefndur af heilbr.- og trn., og Vilhjálmur Árnason dósent, sem er tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Þá spyrst hv. þm. fyrir um þann ramma sem störfum nefndarinnar hafi verið settur og hversu langt endurskoðun laganna er komin, m.a. ákvæði um nafnleynd. Því er til að svara að störfum nefndarinnar var ekki markaður annar rammi en sá sem löggjafinn sjálfur gerði með skýru orðalagi bráðabirgðaákvæðisins. Eins og þingmenn muna var bráðabirgðaákvæðinu um nefndarskipunina og störf hennar bætt inn í frv. í meðferð þess á Alþingi. En þar segir svo: ,,Nefndin skal hafa hliðsjón af laga- og tækniþróun á sviði tæknifrjóvgunar, m.a. með tilliti til nafnleyndar. Nefndin skal ljúka störfum innan tveggja ára frá gildistöku laganna.`` Hér er nefndinni markaður tímarammi varðandi störf sín auk þess sem henni eru veittar sérstakar leiðbeiningar um hvað miða skuli við við endurskoðun laganna. Lögin tóku gildi 1. júní sl., eins og hér hefur komið fram, og nefndinni ber því að ljúka störfum á vormánuðum.

Um störf nefndarinnar er það að segja að þau hófust í byrjun þessa árs fyrir fullri alvöru og er nú verið að vinna að upplýsingum um laga- og tækniþróun á þessi sviði í nágrannalöndunum. Þá mun nefndin hafa heimsótt glasafrjóvgunardeild kvennadeildar Landspítalans til að kynna sér framkvæmd laganna eins og hún birtist í starfsemi deildarinnar. Að öðru leyti liggur ekkert fyrir um efnisatriði endurskoðunarinnar eða væntanlegar tillögur nefndarinnar.