Gerð björgunarsamninga

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:20:10 (4670)

1997-03-19 15:20:10# 121. lþ. 93.8 fundur 460. mál: #A gerð björgunarsamninga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um það hver sé stefna Landhelgisgæslunnar og dómsmrn. við gerð björgunarsamninga. Ástæða fyrir spurningunni er sú að við sjóprófin vegna strands Víkartinds kom fram að fulltrúar Eimskipafélagsins hafi í umboði hinnar þýsku útgerðar Víkartinds spurst fyrir um það hjá forstjóra Landhelgisgæslunnar hvort Landhelgisgæslan væri tilbúin til þess að gera björgunarsamning, en það mun hafa gerst miðvikudaginn 6. mars milli 12 og 14 síðdegis þegar skipið var statt 6 sjómílur undan suðurströndinni vélarvana í vitlausu veðri. Samningsformið sem fulltrúar Eimskips vitnuðu til í samtalinu við Landhelgisgæsluna er svokallað ,,Lloyds Open Form for Salvage Agreement`` sem vitnað var til um svokallaðan samning á ,,commercial basis`` sem báðir munu hafa skilið sem drátt á skipinu fyrir fast umsamið gjald.

Forstjóri Landhelgisgæslunnar mun hafa svarað þessari málaleitan svo, samkvæmt Morgunblaðinu í frétt laugardaginn 8. mars, að hann teldi enga möguleika á slíkum samningi, ,,enda væri það andstætt siglingalögum og slíka samninga væri hægt að ógilda.``

Ég hef leitað til lögfræðings sem hefur fengist við mál af þessu tagi og fengið álit hans á þessum ummælum um að þetta væri andstætt íslenskum siglingalögum og hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé rangt. Íslensku siglingalögin geri beinlínis ráð fyrir gerð björgunarsamninga.

Samkvæmt 167. gr. siglingalaga er hægt að ógilda eða breyta björgunarsamningum ef þeir eru gerðir meðan hættan vofir yfir og þeir ósanngjarnir. Litið hefur verið á að þetta ákvæði sé fyrst og fremst til varnar þeim sem bjargað er.

Það er ljóst að fjárhagslegur mismunur er á því fyrir Landhelgisgæsluna hvort björgunarsamningur fyrir fyrir fram fast gjald er gerður eða björgun úr beinni neyð eins og síðan var reynt. Það er afleitt að það skuli annaðhvort vera komið undir fjárhagslegum útgjöldum eigenda skipa eða tryggingafélaga eða að fjárhagslegur hagur Landhelgisgæslunnar hafi áhrif á hvenær er kallað á aðstoð í björgun. Vegna þess sem komið hefur fram í máli mínu að Landhelgisgæslan synjaði því að skipið yrði dregið fyrir fast gjald, þá geri ég ráð fyrir að það hljóti að vera einhver ákveðin stefna í málum sem þessum hjá Landhelgisgæslunni eða dómsmrn. um slíka samninga og því óska ég eftir upplýsingum um það hjá hæstv. dómsmrh.