Kjarnavopn á Íslandi

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:36:12 (4676)

1997-03-19 15:36:12# 121. lþ. 93.9 fundur 427. mál: #A kjarnavopn á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:36]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. utanrrh. um kjarnavopn á Íslandi er svohljóðandi:

1. Hvað er hæft í því sem haft er eftir fyrrverandi starfsmanni sænsku utanríkisþjónustunnar, Leif Leifland, í sænskum fjölmiðlum nýverið (Dagens Nyheter 1. mars 1997) að kjarnavopn hafi verið geymd í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli?

2. Hefur utanríkisráðherra látið kanna heimildir er varða samskipti Íslands og Bandaríkjanna fyrr á árum með tilliti til flutnings eða geymslu kjarnavopna hérlendis, m.a. í ljósi þess sem fram hefur komið að undanförnu um kjarnavopn á Grænlandi?

3. Hafa íslensk stjórnvöld krafið bandarísk stjórnvöld eða hermálayfirvöld NATO svara við því hvort einhvern tíma hafi verið flutt kjarnavopn á vegum bandaríkjahers og/eða NATO til Íslands eða um íslenskt yfirráðasvæði? --- Hafi slíkar spurningar verið bornar fram, hver voru þá svörin?

Þetta er fyrirspurnin, virðulegur forseti og eins og fram kemur, er hún í þremur liðum, varðar mismunandi þætti en er þó að kjarna til um hvort hér hafi, svo fremi hæstv. utanrrh. hafi vitneskju um það, verið staðsett kjarnorkuvopn eða flutt hingað um íslenskt yfirráðasvæði.

Allir þekkja það, virðulegur forseti, hvað mál af þessu tagi hafa verið viðkvæm á liðinni tíð. Menn gera út af fyrir sig ekki mikið með yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda eftir að í ljós kom að þeir höfðu brotið gróflega á Dönum varðandi staðsetningu kjarnavopna í herstöðinni í Thule, að vísu með vitneskju tiltekinna danskra stjórnmálamanna og einhverra embættismanna, en þetta mál var eitt heitasta mál í umræðunni í Danmörku 1995 og er það enn þá, rannsóknir sem þessu tengjast. Það ber einnig að minna á að fyrir liggur úr athugunum á skjölum í bandarískum skjalasöfnum að til umræðu var að flytja kjarnavopn til Íslands, Nike-eldflaugar búnar kjarnaoddum, sérstaklega á árinu 1957 eða þegar til stóð að flotinn yfirtæki af landhernum hér. Þau efni voru til umræðu af æðstu herstjórn Bandaríkjanna og þeim sem tengdust henni og var jafnvel undirbúið að færa það mál í tal við íslensk stjórnvöld á þessum tíma. Hins vegar hafa ekki komið fram gögn, það fremi ég veit um að eitthvað hafi orðið úr áformum þá eða síðar að þessu leyti og ég er út af fyrir sig ekki að leiða neinum sérstökum getum um það efni umfram það sem ætla má af stöðu Íslands á þessum tíma í gegnum marga áratugi sem hlekkur í kjarnorkuvígbúnaði Bandaríkjanna og NATO hér á Norður-Atlantshafi.