Verkmenntun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 15:53:26 (4683)

1997-03-19 15:53:26# 121. lþ. 93.10 fundur 428. mál: #A verkmenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MagnA
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Magnús Aðalbjörnsson):

Virðulegi forseti. Ástæður fyrirspurnar minnar eru þær áhyggjur sem forsvarsmenn iðnaðarins hafa látið í ljós í sambandi við iðn- og tæknimenntun. Eins og kunnugt er hefur verknám átt undir högg að sækja í skólakerfinu, ýmsar hindranir eru í vegi eðlilegra framfara á þessu sviði. Svo á að heita að löggjafinn geri ekki greinarmun á bók- og verknámi en í raun hefur bóknám verið eftirsóttara af nemendum enda þótt þörfin fyrir verk- og tæknikunnáttu sé mjög veruleg í þjóðfélaginu.

Sú spurning vaknar hvernig kennslu- og uppeldisfræði er skilgreind í þessu námi. Er hún jafnt sett saman af þörfum í bóklegri og verklegri kennslu? Undanfarið hefur vakið athygli sú mikla áhersla sem forsvarsmenn iðnaðarins hafa lagt á hvers konar verknám á framhaldsskólastigi sem taki mið af þörfum fyrirtækja í greininni. Því til viðbótar hefur verið stofnað til öflugrar endurmenntunar í mörgum iðngreinum sem gerir iðnaðarmönnum kleift að fylgjast með verktækni hvers tíma og færa hana jafnharðan út í fyrirtækin og treysta með því stöðuna í alþjóðlegri samkeppni. Í opinberri umræðu hafa fulltrúar atvinnulífsins bent á að þessum mönnum sé gert erfitt fyrir um ráðningu í kennslu á sínu sérsviði. Enda þótt þeir kunni mjög vel skil á því fagi sem um er að ræða verði þeir að stunda nám og gangast undir próf á sviðum sem ekki er með nokkru móti hægt að tengja því viðfangsefni að kenna þá bóklegar og verklegar greinar á framhaldsskólastigi. Nefnd hafa verið dæmi þess að skólar hafa ekki eða trauðla getað ráðið hálærða tæknimenn til að kenna sitt fag vegna þess að aðrir hafi meiri rétt til stöðunnar sem minna kunna í faginu, jafnvel ófærir til kennslu en hafa lokið prófi í uppeldisfræðum.

Fulltrúar atvinnulífsins hafa bent á að þessi þáttur hamli eðlilegri ráðningu iðnaðar- og tæknimanna til fagbóklegrar og verklegrar kennslu iðnnema. Það er raunhæft að stokka upp kennslu- og uppeldisfræði, skilgreina hana upp á nýtt og gera iðnaðar- og tæknimönnum kleift að fá faggreinabundin kennsluréttindi. Í þeim efnum er rétt að huga að því hvernig aðrar þjóðir standa að þessum málum. Danir leysa þetta þann veg að veita greinabundin kennsluréttindi eftir 60 kennslustunda kennslufræðinám ásamt lögbundinni leiðsögn eldri kennara í tiltekinn tíma.

Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. menntrmh. í tveimur liðum. Sú fyrri er um hvort ráðherra telji að nám til kennsluréttinda í uppeldis- og kennslufræðum í grunn- og framhaldsskólum vanmeti þarfir verkmenntagreina og ef svo er til hvaða ráða ráðherra hyggist grípa.

Sú seinni er um hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að gera tæknimennt að skyldunámsgrein í grunnskólum. Ég tel það fyllilega koma til greina.