Verkmenntun

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:01:19 (4686)

1997-03-19 16:01:19# 121. lþ. 93.10 fundur 428. mál: #A verkmenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MagnA
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Magnús Aðalbjörnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Í sambandi við tæknimennt vil ég segja að ég dáist að því framtaki Reykjavíkurborgar að efna til samkeppni milli grunnskólanema borgarinnar um frumlegar og nytsamar uppfinningar og veita verðlaun fyrir þær bestu. Þetta ýtir undir sköpunargleði og heilbrigðan samkeppnisanda. Einnig vakti tæknimenntakennsla Manfreðs Lemke í Grunnskóla Blönduóss og í Stórutjarnaskóla verðskuldaða athygli. Þar samþætti hann eðlisfræði og handmennt, t.d. lét hann nemendur búa til dyrabjöllu í handmenntatímum í stað þess að útskýra leyndarmál dyrabjöllunnar með teikningum. Einnig lét Manfreð nemendur sína glíma við galdra aflfræðinnar með því að búa til einföld tæki.

Hvað varðar uppeldis- og kennslufræði vil ég segja þetta: Sérfræðingar eru ekki á einu máli um það hvað þessir þættir eiga að skipa stóran sess í námi kennaranema. Á fundi sem áhugamenn um menntun og skóla boðuðu til sl. laugardag um efnið Hvert stefnir í skólamálum? var þessum spurningum varpað fram:

Hverju hefur uppeldisfræðin skilað í sambandi við aga eða agaleysi í þjóðfélaginu?

Hverju hefur kennslufræðin skilað í skólunum?

Stöndum við jafnfætis öðrum þjóðum, t.d. í raungreinum?

Þetta eru miskunarlausar spurningar og ranglátar einar og sér þar sem þær þurfa að skoðast í miklu víðara samhengi. En þær eiga rétt á sér á hverjum tíma.