Úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:05:29 (4688)

1997-03-19 16:05:29# 121. lþ. 93.11 fundur 430. mál: #A úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:05]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ástæða fyrirspurnar minnar um dreifbýlisstyrk til hæstv. menntmrh. stafar m.a. af bréfi sem okkur þingmönnum Suðurl. hefur borist frá hreppsnefnd Skaftárhrepps, þar sem tekið er fram að íbúar sem búa fjærst framhaldsskólum eigi margir hverjir í fjárhagslegum erfiðleikum með að senda börn sín til framhaldsnáms. Ástæður þess eru auðvitað margfaldur námskostnaður þeirra sem lengst þurfa að sækja nám. Það þarf að útvega nemendum húsnæði, fæði, ferðir og fleira. Einnig eru ástæðurnar mikill tekjusamdráttur sem átt hefur sér stað á landbúnaðarsvæðum á Íslandi.

Fáar kannanir hafa verið gerðar á samanburði framhaldsnáms íbúa þéttbýlis og dreifbýlis. Þó er til könnun frá 1988 sem Hannes Ólafsson gerði og birtist í Menntamálum árið 1989 en helstu niðurstöður þeirrar könnunar eru að færri íbúar landsbyggðarinnar ljúka stúdentsprófi en þeir sem í þéttbýli búa.

Í framhaldi af þessu er dregin sú ályktun að sama gildi um aðra menntun, t.d. iðnmenntun og ýmiss konar sérnám. Í bréfi því sem ég talaði um áðan segir m.a. að hreppsnefnd Skaftárhrepps í Vestur-Skaftafellssýslu lýsi þungum áhyggjum sínum yfir þeim mikla aðstöðumun sem ungmenni víða að af landsbyggðinni þurfa að búa við varðandi kostnað við nám að loknum grunnskóla. Nefndin telur þennan aðstöðumun orðinn algjörlega óviðunandi og hann hafi leitt af sér búferlaflutning fólks og þar með röskun á eðlilegri aldursdreifingu íbúa sumra landsvæða.

Lög nr. 23/1989 voru sett til að jafna aðstöðumun ungmenna á landsbyggðinni sem stunda framhaldsskólanám utan heimabyggðar og vill hreppsnefndin meina að þessum lögum sé ekki framfylgt.

Fyrirspurn mín er svohljóðandi:

1. Hve miklum peningum hefur verið varið árlega í dreifbýlisstyrki fyrir framhaldsskólanemendur á síðustu tíu árum?

2. Eftir hvaða úthlutunarreglum er farið?

3. Njóta nemendur, sem búa í mestri fjarlægð frá framhaldsskólum, sérstöðu þegar til úthlutunar kemur?

4. Er á döfinni að breyta úthlutunarreglunum? Ef svo er, þá hvernig?