Úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:13:11 (4690)

1997-03-19 16:13:11# 121. lþ. 93.11 fundur 430. mál: #A úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:13]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja í það stórvirki að spyrja hæstv. menntmrh. um þessi mikilvægu mál. Staðfestir það annað með öðru hversu djarfur Framsfl. er í sambandi við þennan málaflokk. En ekki meira um það, virðulegur forseti.

Það skiptir gífurlega miklu máli efnislega hvernig á málum er haldið varðandi dreifbýlisstyrkina. Bæði varðandi upphæð þeirra, að hún sé sanngjörn og viðunandi, og eins að úthlutunarreglur séu skýrar og gagnsæar. Ég var síðast í dag að heyra dæmi um útfærslu á reglum þar sem nemanda á framhaldsskóla, Menntaskólanum við Hamrahlíð, á tónlistarbraut er synjað um dreifbýlisstyrk, reglulegum nemanda í þeim skóla. Ég á eftir að athuga hvað getur valdið slíkri afgreiðslu. Kannski vill hæstv. ráðherra segja eitthvað um það? Ég hélt að svona mismunun væri ekki heimil eftir því á hvaða spori menn væru í reglubundnu framhaldsnámi.