Úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:17:25 (4693)

1997-03-19 16:17:25# 121. lþ. 93.11 fundur 430. mál: #A úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Ég get ekki svarað fyrirspurn hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um úthlutun til einstakra nemenda í þessu kerfi. Ég held að reglurnar séu í sjálfu sér skýrar, eins og fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Jónssonar. Hv. þm. átti sjálfur sæti í þessari úthlutunarnefnd þannig að hann þekkir það líklega best hér af þingmönnum eftir hvaða reglum þarna er starfað. En það er rétt að fjárveitingin kann að vera of naum. Hún er nú 136 milljónir en ekki 110 milljónir þannig að bilið upp í 200 milljónir, sem hv. fjárlaganefndarmenn voru að gæla við, er ekki eins stórt og þeir kannski héldu. En það var gott að heyra góðar óskir þeirra um farsæld þessa fjárlagaliðar og við skulum sjá hvernig málinu reiðir af.