Slysabætur sjómanna

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:25:57 (4696)

1997-03-19 16:25:57# 121. lþ. 93.12 fundur 434. mál: #A slysabætur sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:25]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er dálítið sérstakt hvað þessi nefnd hefur verið lengi við störf án þess að komast að niðurstöðu. Það er fyrst núna 1997 eða þremur árum síðar að komin er sú niðurstaða sem hæstv. ráðherra boðar hér, að það eigi að semja um þetta í kjarasamningum. Ég geri ekki lítið úr því að þetta verði samkomulagsatriði milli sjómanna og útgerðarmanna. Staðreyndin er samt sú að sjómenn hafa þurft að bera það bótalítið eða jafnvel bótalaust þegar þeir lenda í vinnuslysum um borð í skipum sem á engan hátt er hægt að rekja til vanrækslu þeirra eða aðgæsluleysis heldur eru þau störf sem fylgja sjómennsku oft mjög flókin og mjög áhættusöm og í engu hægt að kenna sjómönnum um það hvernig fer í flestum þeim slysum sem um borð í skipum verða. Það er því mjög nauðsynlegt, og það í raun fyrir löngu síðan, að taka á þessum málum, sem ég held að engin önnur stétt í landinu búi við, að vera lítið sem ekkert tryggð þegar kemur að slysum á vinnustað.