Slysabætur sjómanna

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:31:03 (4699)

1997-03-19 16:31:03# 121. lþ. 93.12 fundur 434. mál: #A slysabætur sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að nöfn nefndarmanna eru ekki hér með og hlýt að taka á mig ábyrgð á því að það blað hefur einhverra hluta vegna fallið niður. En ég hygg að það sé ekki leyndarmál hverjir eru í nefndinni og óþarfi að vera að brigsla mér um annarlegar sakir af þeim sökum. Ég held að þeir sem eru í nefndinni séu mjög vandaðir menn og séu ekkert að fela í þeim efnum. Ég skal á hinn bóginn senda hv. þm. nöfnin bréflega þannig að hann þurfi ekki undan því að kvarta.

Ég átta mig ekki alveg á anda umræðnanna. Eins og þáltill. var samþykkt á sínum tíma, og ég ætla að lesa það aftur, þá er ekki gefinn neinn vegvísir sérstakur í henni. Álitsgreinin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að endurskoða ákvæði siglingalaga, nr. 34/1985, um bótarétt sjómanna á íslenskum skipum vegna líf- eða líkamstjóns.``

Þetta er það sem stendur um það efni. Það er einmitt það sem verið er að gera. Ég held að menn hafa verið að afla upplýsinga og safnað hafi verið grunngögnum. Það er fullkomin sátt um það innan nefndarinnar að láta á það reyna hvort ekki takist samningar um þau atriði sem hér er verið að fjalla um. Ég sé því ekki að það sé ástæða til einhverra stóryrða af þeim sökum. Hitt kemur mér ekki á óvart að hv. þm. Kristján Pálsson skuli ekki sætta sig við það sem fulltrúar sjómanna sætta sig við í þessum efnum af því að hann hefur tekið að sér að tala fyrir hönd þeirra samtaka nú upp á síðkastið. En ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði að það er verið að vinna að þessu máli í fullri sátt sjómanna og útgerðarmanna, og alveg ástæðulaust að vera að gefa eitthvað annað í skyn.