Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:00:19 (4704)

1997-03-20 11:00:19# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:00]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu sinni áðan nefndi hæstv. ráðherra aðeins Grundartanga og sagði einnig ,,og önnur svæði``, og ég skildi ræðuna þannig að í raun og veru hefði forráðamönnum fyrirtækisins eingöngu verið vísað á Grundartanga. Reyndar veit ég að það var svo. Þeim var vísað á Grundartanga þannig að veruleikinn í málinu er sá að stjórnvöld beittu sér sérstaklega fyrir því að fyrirtækið yrði sett niður á þessum umdeilda stað, þ.e. á Grundartanga, en ekki t.d. á Keilisnesi. Og ég spyr ráðherrann í framhaldi af þessu: Hafði hann enga skoðun á málinu? Taldi ráðherrann ekki koma til greina að beina fyrirtækinu á Keilisnes sem hefði e.t.v. þýtt að Landsvirkjun hefði orðið að reikna með aðeins öðru raforkuverði vegna þess að línur yrðu lengri á Keilisnes en á Grundartanga? Ég hef satt að segja látið reikna út hverju það munar í orkuverði og niðurstaðan er sú að það munar sáralitlu. Þess vegna endurtek ég spurninguna til hæstv. ráðherra: Gerði hann ekki tilraun til þess að hafa áhrif á forráðamenn fyrirtækisins um að koma fyrirtækinu fyrir annars staðar?