Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:23:21 (4707)

1997-03-20 11:23:21# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ákveðinn þáttur í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem kom mér nokkuð á óvart. Það var hin fortakslausa yfirlýsing sem hann var að gefa hér nánast eins og fyrir hönd stjórnvaldsins, þ.e. hæstv. iðnrh. og umhvrh. sem bera þetta mál fram, að í einu og öllu hafi verið farið að íslenskum lögum í sambandi við málsmeðferð að því er snertir umhverfisvernd. Ég átta mig ekki alveg á því hvað veldur þessari mjög svo ákveðnu undirstrikun og yfirlýsingu af hálfu formanns Alþfl. Ég hefði nú talið að hv. þm. og flokksformaður hefði átt að kynna sér svolítið betur málsmeðferðina og hvað liggur t.d. í þeirri athugun sem fram hefur farið á vegum umhvrn. og hvað gerst hefur í sambandi við reglugerðir, ólöglega reglugerðarsetningu sem hefur síðan verið dregin til baka m.a. af hálfu umhvrh., mál sem er engan veginn út af borðinu, áður en hv. þm. færi hér eins og fyrir hönd hæstv. ráðherra að gefa slíkar yfirlýsingar. Ég veit ekki hvort það er einhver slóði frá þeirri tíð sem hv. þm. var í ráðherrastóli í þessu máli en þetta vakti nokkra undrun mína.