Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:31:02 (4711)

1997-03-20 11:31:02# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:31]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skaut því til skemmtunar að hæstv. iðnrh. áðan hvort hann mundi ekki vilja taka sér frí í dag og fá hv. 4. þm. Vestf. til að svara fyrir málið því mér þykir hv. 4. þm. Vestf., formaður Alþfl., bara standa sig nokkuð vel í því að svara fyrir þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég verð að segja að ég er dálítið hissa á því að menn skuli fortakslaust lýsa stuðningi við málið eins og það liggur fyrir vegna þess að ég tel að mörgum spurningum sé ósvarað. Ég treysti mér ekki til að lýsa því yfir á þessari stundu hvaða afstöðu ég muni hafa til þessa frv. í einstökum atriðum þegar það kemur til 2. umr.

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi nefna það sem mér finnst hvað alvarlegast við málið að það er ekki kynnt sem neinn hluti af framtíðarsýn í atvinnumálum. Ég hef farið aðeins yfir það hvernig þeir hlutir líta út að því er varðar atvinnuvegi okkar, sjávarútveginn, ferðaþjónustuna og orkuiðnaðinn líka. Það er alveg ljóst að við þurfum að átta okkur á því hvert við viljum halda. Hvernig Ísland viljum við í framtíðinni næstu ár og áratugi?

Herra forseti. Við vitum í fyrsta lagi að framtíðin er óljós. Það er nokkurn veginn alveg á hreinu að við getum verið sammála um um það. Í öðru lagi vitum við hins vegar að allar líkur eru á því að á næstu árum gætum við, ef vel gengur, aukið þorskveiðikvótann upp í kannski 350 þús. tonn ef allt gengur upp. Í þriðja lagi getum við gert ráð fyrir því að á næstu árum bætist talsvert við ferðaþjónustu á Íslandi þó ekki væri nema vegna þess að við kannski flyttum að einhverju leyti inn hagvöxtinn sem verður í grannlöndum okkar og reiknað er með t.d. í áætlunum OECD til næstu ára. Og í fjórða lagi getum við auðvitað velt því fyrir okkur hvaða möguleika við höfum á að virkja hér hugvit. Ég nefni í fimmta lagi að efla Ísland sem matvælaframleiðsluland m.a. við framleiðslu á alls konar vörum eins og landbúnaðarvörum sem mér finnst ekki rétt að afskrifa í þessu samhengi. Horfum svo á alla þessa möguleika með hliðsjón af orkumöguleikunum sem eru gríðarlegir.

Ef við t.d. stillum upp þeim orkukostum sem Landsvirkjun hefur verið að skoða er þar um að ræða um það bil 10--11 þúsund GWh í orkuframleiðslu á ári og til þess að menn átti sig í raun og veru á hvað það er risavaxin tala þá gerir sá samningur sem hér er verið að tala um ráð fyrir 920 GWh á ári. Möguleikarnir sem hafa verið kortlagðir af ýmsum aðilum, m.a. Orkustofnun, eru 10--11 sinnum stærri að því er þetta varðar. Vandinn er hins vegar sá að við vitum ekki nákvæmlega hvað við getum notað af þessum kostum af því að umhverfiskröfur nútímans og framtíðarinnar munu fækka þeim. Það er alveg á hreinu tel ég vera, herra forseti, að við munum ekki geta byggt allar þær virkjanir á Austurlandi sem nú eru á þessum orkuáætlunarblöðum. Þar er ég ekki að tala um eina virkjun frekar en aðra eða síður en aðra, en ég bendi t.d. á Kárahnjúkavirkjun sem yrði 500 MW virkjun, Arnardalsvirkjun sem yrði um 200 MW virkjun, en báðar þessar virkjanir mundu þurfa gríðarlega stór miðlunarlón og mundu sökkva geysistórum landsvæðum m.a. í Fagradal eystri sem verður vafalaust mjög umdeilt þegar þar að kemur. Svo ekki sé minnst á þann veruleika að Fljótsdalsvirkjun er núna orðin umdeilanlegri en hún var þegar frv. var samþykkt á Alþingi. Ég hef sagt í fjölmiðlum síðustu daga að ég er þeirrar skoðunar að ef Hágöngumiðlun hefði komist á dagskrá fyrir fimm árum hefðu menn sennilega ekki farið út í það að nota Hágöngumiðlun eins og við ætlum nú að gera vegna þess að umhverfiskröfurnar hefðu þá verið allt aðrar.

Ég held með öðrum orðum að þessi framtíðarsýn sé þannig að við munum ekki geta virkjað nema hluta af því vatnsafli sem menn ætluðu að virkja. Þess vegna tel ég að sú uppsetning mála sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni og að einhverju leyti hjá hæstv. iðnrh. sé að mörgu leyti liðin tíð. En það þýðir ekki að Íslendingar séu dæmdir til vondra lífskjara vegna þess að ég hef skoðað það að gamni mínu hvað kæmi út úr því ef við virkjuðum, þó ekki væri nema helminginn af því vatnsafli sem menn hafa verið að tala um, þ.e. 5 þús. GWh á ári. Ef við veltum því fyrir okkur að ferðaþjónustan bæti við sig 4% eða svo á ári næstu árin en ekki 10% eins og oft var á undanförnum árum. Ef við horfum á 150 þús. tonn af þorski í viðbót við það sem við höfum verið að veiða núna. Ef við horfum á allt þetta er alveg augljóst að við erum með landsframleiðslu umfram það sem er í dag upp á sennilega um 30% af þessu öllu og veruleikinn er auðvitað sá að þegar við skoðum Ísland og þessa möguleika í samhengi við lífskjör annarra þjóða þá eigum við mikla og jákvæða möguleika. En styrkur Íslands liggur í því að nota þá alla en ekki bara suma.

Ég bendi á í þessu samhengi sem Ritt Bjerregaard segir í viðtali við Morgunblaðið í dag. Hún er spurð: Í hverju liggur styrkur Íslands? Styrkur Íslands liggur í því að það er hreint, segir hún. Það er styrkur Íslands. Ég held að þessi þáttur málsins sé í raun stórkostlega vanmetinn í umræðunni um orkunýtinguna. Mér finnst, herra forseti, að stjórnvöld hafi vanrækt að teikna upp þessa framtíðarsýn. Mér finnst ekki vera nein stefna önnur en sú að grípa gæsina þegar hún flýgur hjá hvort sem hún er Columbia Ventures Corporation eða eitthvað annað. Og að ákvarðanirnar séu ekki hluti af heildarstefnu. Þetta vil ég segja í fyrsta lagi um mína afstöðu í þessu máli, herra forseti. Ég tel að horfa eigi á þetta mál sem hluta af heildarstefnu að því er varðar lífskjör Íslendinga og umheimsins. Þetta segi ég númer eitt, herra forseti. Ég get út af fyrir sig farið út í þetta aðeins nánar en því miður leyfir tíminn það ekki.

Ég ætla í annan stað að víkja að málinu sjálfu eins og það liggur fyrir og þá fyrst að frv. sem slíku og segja --- ef hæstv. ráðherra gæti hlýtt á --- að mér finnst frv. sérkennilegt. Ég held að ekki þurfi að afgreiða allt þetta í lögum sem stendur hérna. Ég skil það ekki alveg. Ég segi að því er varðar 1. gr. að í raun séu bara tvö atriði sem þar þurfa að vera en ekki mörg almenn atriði eins og hér eru.

Ég segi einnig varðandi 2. gr. að mér finnst að það eigi eiginlega ekkert að vera inni nema síðasti málsliðurinn. Að því er varðar 3. gr. þá tel ég að hún þurfi efnislega að vera þarna að því er varðar ábyrgð á því að hægt sé að ganga frá þessum samningum við hafnarsjóð Grundartangahafnar og tryggja efndir hreppsnefnda Skilmanna- og Hvalfjarðarstrandahreppa en til viðbótar finnst mér --- og það vil ég bera undir hæstv. ráðhrra og biðja hann um að hugleiða --- að þarna eigi líka að vitna til raforkusamningsins úr því að vitnað er til hafnarsamningsins. Það væri eðlilegt að raforkusamningurinn yrði nefndur í þessari grein og starfsleyfið líka þannig að Alþingi fengi kost á því að taka afstöðu til allra þessara þátta, því eins og frv. lítur út núna eru öll þessi efnisatriði í raun fyrir utan það sem við mundum greiða atkvæði um þegar þar að kemur og frv. kemur til 2. umr. Þetta bið ég menn um að hugleiða. Ég er þá kannski ekki bara að tala um þetta frv. heldur önnur frv. um stóriðju sem hér kunna að koma og hafa komið að mér finnst að hægt sé að gagnrýna þau út frá þessu, að í raun er hið pólitíska úrlausnarefni ekki lagt fyrir Alþingi eins og mér finnst að eigi að gera, þ.e. raforkan, hafnarsamningurinn, fasteigna- og lóðarsamningurinn og starfsleyfisþátturinn. Eingöngu með því að vitna í það tel ég vera að það hafi verið gefið út á þessum degi og Alþingi taki afstöðu til þess.

Mér finnst að 4. gr. þurfi að vera þarna. En ég spyr ráðherra um tvennt: Í síðustu málsgrein er félagið undanþegið ákvæðum um brunatryggingar og í henni er líka talað um að ákvæði laganna um viðlagatryggingu eigi ekki við um félagið. Þetta er örugglega vegna þess að þetta er líka svona í álverinu í Straumsvík, ég geri ráð fyrir því og það sé upphafið að þessu máli. Ég hefði talið skynsamlegra að reyna að feta sig smátt og smátt út úr því að sérlög þurfi um þessi fyrirtæki eins og menn gera í skattamálunum hér. Og af því að við erum að tala um nýtt fyrirtæki, þá spyr ég ráðherrann. Hvað segir hann um að þessir hlutir yrðu teknir sérstaklega inn þannig að gert væri ráð fyrir að sömu ákvæði giltu um þetta fyrirtæki og um íslensk fyrirtæki, því að það að fyrirtæki fái undanþágu miðað við íslensk fyrirtæki veldur tortryggni og úlfúð sem er óþarfi í mörgum tilvikum.

Ég verð að segja að mér finnst 5. gr. skynsamleg. Þar er skattlagningarþátturinn bara tekinn upp og kemur fram að auðvitað er það þannig að ef menn vilja stofna svona fyrirtæki þá verða menn auðvitað að vera með einhver slík ákvæði inni. Ég sé ekki betur en að þetta sé eðlilegt án þess að ég hafi skoðað og lesið þetta saman við skattalögin.

Í 6. gr. segir svo, með leyfi forseta. ,,Með samningum, sem gerðir eru samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið ...`` Ég ætla aðeins að spyrja hæstv. ráðherra: Hver ákveður þær, hvernig verða þær ákveðnar og á hvaða forsendum verða þessar reikningsskilareglur ákveðnar? Ég tek aftur fram að ég hvet til þess að menn séu heldur ekki að mismuna að þessu leytinu til erlendum fyrirtækjum þannig að það veki upp gagnrýni, úlfúð og leiðindi hjá íslenskum atvinnurekendum.

Í 7. gr. finnst mér líka að sé út af fyrir sig spurning hvort greinin eigi að vera svona. Ég hefði talið að hreinlegast væri að vísa til íslensku gerðardómslaganna en ekki að vera með sérákvæði um gerðardóm í þessu dæmi. Íslensku gerðardómslögin, vil ég segja mönnum til upprifjunar, eru afar góð satt að segja og mikil vinna var lögð í þau þannig að ég hefði talið að það væri nægilegt að vitna til þeirra.

Í 8. gr. er talað um að fyrirtæki skuli vera undanþegið tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, með áorðnum breytingum, og síðan er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar bræðslunnar. Ég spyr ráðherrann: Hvað eru þetta miklar upphæðir sem er verið að spara á þessu fyrirtæki? Hvað sleppur það við mikið af peningum út af þessari 8. gr.? Mér þykir verra að sjá svona grein í frv. en úr því að hún er hér, þá spyr ég um hana.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að einu meginatriði samningsdraganna og það er raforkusamningurinn og segja fyrst að landsvirkjunarstjórn hefur tekið um það ákvörðun að farið skuli með raforkuverðið sem trúnaðarmál. Ég tók ekki þátt í þeirri ákvörðun og mér finnst það álitaefni. Ég bendi á að hæstv. iðnrh. eða viðskrh. öllu heldur hefur sagt: Það á að upplýsa um laun forráðamanna Pósts og síma. Bankanna, sagði hann og menn notuðu þau rök til að segja: Þetta á við um Póst og síma. Þá segi ég: Á þetta í raun og veru ekki eins við þetta? Er það ekki brot á anda upplýsingalaganna að þegja um orkuverðið þegar það er auk þess þannig, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur gefið upp töluna sem er þannig að allir sem kunna þríliðu geta reiknað raforkuverðið út frá henni. Það er að segja, hæstv. ráðherra hefur aftur og aftur gefið það upp og ég held að það standi hérna í þingskjalinu, ég man það þó ekki, en ráðherrann sagði alla vega í ræðunni áðan hvað þetta kostar. Og þeir sem kunna eitthvað pínulítið á þessa hluti geta reiknað raforkuverðið út frá þeirri tölu. En ég tel hæpið að loka þessa hluti inni eins og á að gera og ég spyr: Stangast ekki á við upplýsingalög að neita að gefa upp raforkuverðið? Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að aðalgagnrýni okkar alþýðubandalagsmanna á Grundartangasamninginn á sínum tíma var sú að verðið væri of lágt. Enda hefur það komið í ljós og mig minnir að það hafi verið gagnrýni allra þeirra sem komu að því máli þeim megin frá, m.a. framsóknarmanna, enda er verðið ekki nema 7,9 norskir aurar á kwst. í járnblendiverksmiðjunni og nú eru menn að tala um að hækka þá tölu verulega. (Iðnrh.: Búið að hækka hana.) Og reyndar er búið að hækka hana.

[11:45]

Gagnrýni okkar á álsamninginn í Straumsvík var sem sagt sú að verðið væri allt of lágt enda kom á daginn að það var allt of lágt. Ég segi hins vegar varðandi viðbótarsamninginn í Straumsvík sem við fjölluðum um í fyrra að mér fannst þar um að ræða gott raforkuverð eins og ég lét þá koma fram. Ég vil láta það koma fram hér sem ég get rökstutt allítarlega, en tíminn leyfir það ekki, að ég tel að orkuverðið í þessum samningi sé á mörkunum. Ég tel að það sé á mörkunum og að hv. iðnn. sem fær þetta mál til meðferðar verði að svara mörgum spurningum áður en hún blessar raforkusamninginn, því ég tel að hann sé á mörkunum. Ég segi ekki að hann sé langt undir kostnaðarverði eða neitt því um líkt, en tel að hann sé á mörkunum miðað við þær kröfur sem Landsvirkjun verður að gera til arðsemi. Og ég fullyrði, herra forseti, að í verðlagningunni er ekki gert ráð fyrir óbeinum umhverfiskostnaði. Í verðlagningunni er aðeins gert ráð fyrir beinum umhverfiskostnaði og það tel ég að muni koma í ljós í framtíðinni að menn muni meta þannig að það sé ekki skynsamlegt heldur eigi að taka inn í ákvarðanir um raforkuverð til stóriðju, ekki aðeins beinan heldur líka svokallaðan óbeinan umhverfiskostnað, það sem stundum er kallað náttúrugildi raforkunnar.

Ég tel líka, að því er þessa hluti varðar að það sé álitamál hvort vaxtareikningsforsendur Landsvirkjunar í raforkusamningnum séu réttar. Ég tel líka að það sé álitamál hvort það sé nægilega hörð krafa um arðsemi að gera ráð fyrir því að fjármagnið skili 6,8% arðsemi á tímabilinu eins og hér er gert ráð fyrir og ég fullyrði að mörgum þætti það lítið miðað við þá arðsemi sem yfirleitt er gerð krafa um. Ég bendi á að Landsvirkjun er að borga um 6% nafnvexti af þeim lánum sem hún tekur en það eru að vísu aðeins nafnvextir. Ég tel því að þarna séu menn alveg á ystu nöf.

Ég vil síðan segja að í þessu máli eru mörg önnur atriði. Þar eru byggðamálin og áhrif á þenslu. Það hefur komið fram að ríkisstjórnin gerði enga tilraun til að vísa fyrirtækinu annað en á Grundartanga. Ég tel að það sé einnig nauðsynlegt að fara yfir það og nefna það að fyrirtækið sem við erum að semja við er lítið og veikt. Það getur út af fyrir sig verið kostur að fyrirtæki sé lítið og það getur út af fyrir sig verið kostur að stofna hérna álver sem er í eigu annarra aðila en í Straumsvík til þess að hafa einhvern samanburð þegar fram í sækir. En ég segi: Ég held að það sé alveg á mörkunum að þetta fyrirtæki ráði við það verkefni sem menn eru að tala hér um. Sumir tala um fjárhættuspil í sambandi við þetta fyrirtæki. Ég hef út af fyrir sig ekki haft frumkvæði að því að taka mér þau orð í munn en ég skil vel að menn skuli láta það koma fram.

Ég tel líka nauðsynlegt vegna afstöðu okkar í þessu máli að rifja upp, herra forseti, að við munum horfa mjög rækilega á alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum. Við horfum á staðsetningu fyrirtækisins, sem hefur verið gagnrýnt mjög af íbúum Kjósarhrepps. Umhverfismálin munu því vega mjög þungt þegar við tökum afstöðu í þessu máli.

Að öllu þessu samanlögðu tel ég að málin líti þannig út, herra forseti: Í fyrsta lagi eru enn þá spurningar í raforkusamningnum sem þarf að fá svarað, en þar er teflt á tæpt vað að mínu mati. Í öðru lagi er staðsetning fyrirtækisins í Hvalfirði umdeilanleg frá umhverfisástæðum og byggðaástæðum. Í þriðja lagi finnst mér að skoða eigi rækilega alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum. Í fjórða lagi virðist fyrirtækið vera veikt og tiltrúin á því á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er lítil. Og í fimmta lagi sem er stærst: Þetta mál er ekki lagt fram sem hluti af framtíðarsýn Íslendinga í atvinnu- og efnahagsmálum. Það tel ég stóran galla á þessu frv.