Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:52:58 (4713)

1997-03-20 11:52:58# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:52]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta viðbragð ekki málefnalegt vegna þess að í því tilviki sem hæstv. ráðherra var að vitna til var verið að tala um allt aðra hluti. Þar var verið að tala um arð eigenda, sumir segja svokallaðra eigenda Landsvirkjunar, af fyrirtækinu út á hlut sem við mörg töldum stórkostlega mikið ofreiknaðan. Við vorum líka þeirrar skoðunar að frekar ætti að nota peningana til þess að lækka fyrst og fremst verð á raforku. Og við höfum sýnt fram á það að ef þessir peningar væru notaðir til að lækka verð á raforku til almennings þá mætti lækka verð á raforku til almennings um 20% frá því sem nú er þannig að ráðherrann er ekki að nefna sambærilega hluti að mínu mati.

Það sem ég var hins vegar að tala um, herra forseti, og mér finnst satt að segja slæmt að ráðherrann skuli nefna þetta í sömu andránni, var að arðurinn af því kapítali sem lagt er í þetta fyrirtæki sem menn eru hér að tala um af hálfu Landsvirkjunar, er upp á 6,8% og miðað við þann arð sem fjármagn er að skila annars staðar, eins og hæstv. ráðherra veit, þá er þetta lítið. Það segir þó ekki allt og eru ekki aðalrökin fyrir því að ég tel að verðið sé á mörkunum. Það eru ekki einu rökin, heldur eru þau fleiri. Því ég tel að í þessu samhengi liggi málið þannig að menn þurfi að ætla nokkuð ríflega fyrir kostnaði við næstu virkjanir sem við höfum ekki tíma til að ræða hér í andsvari og óbeinum umhverfiskostnaði sem við höfum heldur ekki tíma til að ræða í þessum andsvarstíma sem er yfirleitt allt of stuttur.