Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:54:51 (4714)

1997-03-20 11:54:51# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:54]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Til þess að öllu sé nú til skila haldið frá fyrri umræðum um Landsvirkjun þá voru það fjórir meginþættir sem menn voru þar að deila um. Í fyrsta lagi orkuverðslækkunarstefnan sem eigandi fyrirtækisins tók ákvörðun um, sem er á bilinu 2--3% á ári eftir aldamót. Síðan er það arðkrafan sem eigendur gera til fyrirtækisins, sú arðkrafa sem eigendur gera í rekstrinum sem er 5,5%. Við erum að bera saman 5,5% þar, í arðkröfunni sem við gerðum, og svo þeim 6,8% sem þessir tveir samningar munu skila fyrirtækinu. Síðan komum við að þriðja þætti málsins sem eru arðgreiðslurnar út úr fyrirtækinu og það er alveg hárrétt hjá hv. þm., herra forseti, að þar erum við að tala um að greiða af uppreiknuðum eiginfjárframlögum á bilinu 5--6% og gert er ráð fyrir því þegar menn setja arðkröfu fyrirtækisins á 5,5%, og það er það sem við þurfum að bera saman ef við ætlum að bera saman raunhæfa hluti, þ.e. annars vegar sú arðkrafa sem eigendur fyrirtækisins gera, sem er 5,5%, og svo arður sem kemur af þessum tveimur samningum inn til fyrirtækisins. Og þá geta þessir samningar, samkvæmt þessu, staðið undir þeirri arðgreiðslukröfu sem eigendur gera á sama tíma vegna þess að það er reiknað inn í heildardæmið. Hitt er svo annað mál að þetta er ekki há arðkrafa sem menn gera. Það get ég tekið undir með hv. þm. og ef þetta fyrirtæki væri á almennum markaði í eigu einkaaðila þá væru líka miklu hærri arðsemiskröfur gerðar. En þá værum við líka að tala um að gera miklu hærri kröfur til orkuverðs í landinu sem er pólitísk samstaða um að gera ekki vegna þess að aukin arðkrafa á þessu sviði hlýtur auðvitað að kalla á hækkun orkuverðs. Það er ekki hægt, herra forseti, að tengja þetta nákvæmlega saman, arðgreiðslurnar út úr fyrirtækinu, því það mundi auðvitað líka gerast á hinum almenna markaði að eigendur vildu fá arð út úr fyrirtækinu af sínum eignum inni í því.