Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:57:08 (4715)

1997-03-20 11:57:08# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Bara til að halda því til haga þá minni ég á grein sem birtist í DV fyrir nokkrum vikum eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Þar kemur það fram að ef eigendur Landsvirkjunar fengju arð eins og um var talað af raunverulegri innborgun sinni í fyrirtækið, þá, eftir það væri hægt að lækka verðið á raforku til almennings um 22%. Þannig að það var þetta sem deilan í raun og veru snerist um, að grunnurinn, eigendahlutinn, höfuðstóllinn væri of hátt reiknaður eins og menn settu dæmið upp.

Í annan stað varðandi arðinn þá heyri ég að við erum alveg sammála um að þetta er ekki hátt hlutfall. Hæstv. ráðherra segir: ,,Ja, þá þyrfti að hækka orkuverðið.`` Ég segi: Það þarf ekki að hækka orkuverðið til almennings. Það þyrfti að hækka orkuverðið til stóriðju. Og gallinn við umræðuna sem hér fer fram á milli okkar, mín og ráðherrans, er sá að það vantar aðgreiningu í reikningum Landsvirkjunar frá upphafi á því hvað er almenningsorkan annars vegar og hvað er stóriðjan hins vegar. Veruleikinn er sá að ég held að hér fyrr á árum þá hafi Landsvirkjun aftur og aftur verið að rugla þessum hlutum saman, í raun og veru að fela það hvað sumir stóriðjusamningarnir voru vondir, sérstaklega stóriðjusamningurinn sem gerður var við Alusuisse á sínum tíma þar sem verðið á kwst. var 3 mill.

En að lokum þetta, herra forseti. Vandinn í verðlagningunni snýst um það að við erum ekki fyrir þetta fyrirtæki að taka neinar, það sem ég vil kalla alvöru nýjar virkjanir nema eina, þ.e. Sultartangavirkjun. Að öðru leyti erum við að mala gull úr þeim virkjunum sem við eigum. Við erum að tala um stækkun Kröfluvirkjunar, aflaukningu í Búrfellsvirkjun. Við erum að tala um Hágöngumiðlun sem byggist á virkjunum sem fyrir eru. Við erum síðan að tala um byggingu Sultartangavirkjunar. Og það er alveg ljóst að í næstu kostum þarna á eftir verðum við að fara í virkjanir sem kosta meira. Það er vandinn.