1997-03-20 13:45:11# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá sem ég tel ekki vera vanþörf á og tek fyllilega undir þau rök sem hún hefur fært fyrir máli sínu um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart þinginu.

Við erum hér að ræða um samskipti þings og hæstv. samgrh. um það í hvaða máli hæstv. ráðherra beri að veita þinginu upplýsingar um málefni Pósts og síma hf. Það er einn stór þáttur í því máli sem ég tel mikilvægt að draga fram í þessari umræðu en það eru starfsmannamál fyrirtækisins. Þegar skipulagsbreytingarnar á Pósti og síma voru ræddar í þinginu var því margoft lýst yfir af hálfu þeirra sem unnu að þeim að allt gengi vel varðandi starfsmannamálin. En það virðist nú þegar fram í sækir að svo virðist sem ekki sé allt með felldu í þeim efnum.

Ég vil í því sambandi vísa til bréfs sem nýverið barst til samgn. þingsins og til formanna þingflokka frá stéttarfélagi verkfræðinga. Jónas G. Jónasson framkvæmdastjóri ritar undir þetta bréf. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stéttarfélag verkfræðinga hefur aðra sögu að segja af sínum félagsmönnum sem voru í starfi hjá Póst- og símamálastofnuninni og eru nú flestir í starfi hjá Pósti og síma hf. og samskiptum félagsins við sjálfa forsvarsmenn Pósts og síma hf. heldur en haldið hefur verið fram í umræðunni um þetta efni. Öll þau samskipti hafa einkennst af stífni og skorti á samstarfsvilja af hálfu undirbúningsnefndar að stofnun hlutafélagsins og síðan fyrirsvarsmanna fyrirtækisins. Félagsgjöld berast ekki lengur frá Pósti og síma hf.`` Og þeir ítreka að þar sem málið sé Alþingi skylt þá vilji þeir draga þetta fram. Þeim er ekki gert að semja á þeim grunni sem þeir eiga félagslegan rétt á heldur eru hverjum og einum afhent drög að ráðningarsamningi sem þeir eru beðnir um að fara með sem algjört trúnaðarmál, undirrita og skila svo til starfsmannaskrifstofu. Það eru mjög víðtæk samkeppnisákvæði sem nánast koma í veg fyrir að starfsmenn geti hætt hjá Pósti og síma og farið til annarra starfa. (Forseti hringir.) Það er mjög margt sem talið er upp í þessu bréfi, sem ég hef því miður ekki tíma til að rekja, sem segir okkur að hinu háa Alþingi sé full ástæða til að fylgjast mjög náið með því hvernig þessi mál þróast hjá Pósti og síma hf.

Ég vildi draga þetta sérstaklega fram vegna þess að ég held að þetta hljóti að skipta verulegu máli í því hvernig upplýsingaskylda hæstv. ráðherra gagnvart þinginu þróast í þessum málum.